Trump: of langt gengið að kalla Biden „óðan hund“

Joe Biden fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti kom Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda til varnar í dag. Var Trump þar að bregðast við lýsingu norður-kóresku ríkisfréttaveitunnar KNCA frá því á föstudag. Fréttaveitan hafði líkt Biden við „óðan hund“ sem eigi að „berja til bana“, eftir að hann hafi vogað sér að „bera út róg um leiðtoga“ Norður-Kóreu.

Ekki er hægt að segja að Trump haf brugðist við lýsingunni á varaforsetanum fyrrverandi af neinum ofsa. Sagi hann á Twitter of  langt gengið að kalla Biden „óðan hund“. „Joe Biden kann að vera syfjaður og hægur“, sagði Trump sem oft hefur kallað hann Sleepy-Joe. „En hann er ekki óður hundur. Hann er satt best að segja betri en það,“ sagði forsetinn.

Ekki er ljóst hvernig Biden vakti reiði norður-kóreskra ráðamanna, en viðbrögðin komu eftir að kosningaherferð Biden var kynnt. Þar fordæmir hann utanríkisstefnu Trumps, sem hann segir lofa „einræðisherra og harðstjóra á sama tíma og hann ýti bandamönnum til hliðar.“ 

Orðið „harðstjóri“ heyrist í auglýsingunni á sama tíma og mynd birtist af Trump og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu birtist á skjánum. Eru leiðtogarnir þar að takast í hendur á fundi sínum í Singapore í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert