Sífellt fleiri greinast með bráðaofnæmi

Skelfiskur getur verið ofnæmisvaldandi.
Skelfiskur getur verið ofnæmisvaldandi. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sífellt fleiri börn eru lögð inn á sjúkrahús á Englandi vegna bráðaofnæmis. Á undanförnum fimm árum hefur tilfellunum fjölgað jafnt og þétt. Á árunum 2013—2014 voru 1.015 börn meðhöndluð vegna bráðaofnæmis en 2018—2019 voru þau orðin 1.746 talsins. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá. 

„Þetta hringir öllum viðvörunarbjöllum,“ segja foreldrar Natasha Ednan-Laperouse sem lést árið 2016 eftir að hafa snætt baguette-brauð sem innihélt örðu af sesamfræjum. 

Vísindamenn segja að ástæðuna fyrir því að fleiri greinast með ofnæmi megi rekja til  umhverfislegra þátta. Börn sem eru yngri en 10 ára eru líklegust til að fara í ofnæmislost. Á síðasta ári voru 1.018 börn á þessum aldri lögð inn á sjúkrahús vegna þessa en árin 2013—2014 voru þau 601 talsins.  

Fæða er algengasta orsök slíkra ofnæmisviðbragða og eru hnetur, fiskur og skelfiskur helstu ofnæmisvaldar. Hins vegar geta stungur frá geitungi eða hunangsflugu eða lyf einnig kallað fram viðbrögðin. 

Það getur verið nóg að örlítil arða af þessari fæðu komist í snertingu við einstakling með ofnæmi til að kalla fram ofnæmislost. Helstu viðbrögð eru erfiðleikar með að anda, aukinn hjartstláttur og fólk missir meðvitund.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert