12 ára drengur dæmdur sekur

Pilturinn var handtekinn í október. Nú hefur hann verið sakfelldur …
Pilturinn var handtekinn í október. Nú hefur hann verið sakfelldur en endanlegur dómur verður kveðinn upp í næsta mánuði. AFP

Tólf ára gamall piltur hefur verið sakfelldur fyrir lögbrot í tengslum við mótmælin í Hong Kong. Hann er sá yngsti sem hefur hlotið dóm í tengslum við málið. Hann var handtekinn þegar hann var á leið í skólann daginn eftir mótmæli sem fóru fram í október.

Pilturinn játaði að hafa valdið skemmdum með því að spreyja slagorð á lögreglustöð og neðanjarðarlestarstöð. Dómur verður kveðinn upp yfir honum í næsta mánuði. 

Fram kemur á vef BBC, að lögreglan hafi framkvæmt rúmlega 5.000 handtökur frá því mótmælin hófust í júní. Mörg börn á aldrinum 12 til 15 hafa verið handsömuð, en þetta er í fyrsta sinn sem barn er dæmt fyrir afbrot.

Mótmælin hófust í júní en hafa stigmagnast undanfarnar vikur.
Mótmælin hófust í júní en hafa stigmagnast undanfarnar vikur. AFP

Saksóknarar sögðu við aðalmeðferð málsins að óeinkennisklæddur lögregluþjónn hafi séð piltinn skrifa „bölvaðir lögguþrjótar“ og  „heilög tortíming, frelsið HK“ á veggi Mong Kok-lögrelustöðvarinnar og á veggi Prince Edward-lestarstöðvarinnar 3. október. 

Lögreglumaðurinn elti drenginn heim til sín og beið fyrir utan húsið um nóttina, að því er fram kemur í kínverskum fjölmiðlum. Þegar pilturinn lagði af stað í skólann kl. 7 um morguninn hafði lögreglumaðurinn af honum afskipti og framkvæmdi leit heima hjá honum, þar sem svört málning fannst.

Jacqueline Lam, lögmaður piltsins, sagði við réttarhöldin að honum hafi verið haldið yfir nótt á lögreglustöð í kjölfar handtökunnar. Það hefði verið honum dýrmæt lexía. 

„Ég bið dómstólinn um að gefa honum tækifæri,“ sagði hún. „Hann er nú aðeins 12 ára gamall.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert