Hafnar tengslum gróðurelda og loftslagsvár

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hafnaði því alfarið í dag að stefna stjórnar hans í loftslagsmálum hefði nokkuð að gera með mikla gróðurelda sem gert hafa Áströlum lífið leitt að undanförnu. Fullyrti Morrison þess í stað að stjórn hans væri að gera alveg nóg til að takast á við loftslagsvána. 

Tugir nýrra elda kviknuðu í dag. Sydney, stærsta borg Ástralíu, var umvafin þykkum reyk og var íbúum í suðausturhluta landsins gert að yfirgefa heimili sín og börnum í Sydney að halda sig innandyra.

„Sú hugmynd að Ástralar, sem bera ábyrgð á um 1,3% af útblæstri jarðar, hafi með einhverjum hætti áhrif á eldana hvort sem það er hér eða annars staðar í heiminum stenst ekki trúverðuga vísindalega skoðun,“ sagði Morrison í samtali við ABC, ástralska ríkisútvarpið, og kvað Ástralíu „vera að gera sitt“.

600 heimili orðið eldum að bráð í New South Wales

Morrison hefur undanfarið sætt gagnrýni fyrir að neita að ræða möguleg tengsl loftslagsvárinnar og gróðureldanna sem nú eru mun fyrr á ferðinni en vanalega. Hefur forsætisráðherrann verið hvattur til að gera meira til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hraða á skiptum yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

AFP-fréttaveitan segir vísindamenn, fyrrverandi slökkviliðsstjóra og íbúa sem hafa orðið fyrir áhrifum af eldunum alla hafa nefnt tengsl aukins ofsa eldanna og loftslagsvárinnar.

Þurrkar, óvenjumikil hlýindi og vindar hafa kynt undir eldunum og telja vísindamenn marga þessara þátta mega rekja til loftslagsbreytinga. Sú umræða er hins vegar viðkvæm þar sem miklar tekjur fást af námavinnslu í Ástralíu.

Í dag loguðu eldar í öllum fylkjum Ástralíu og voru íbúar áhættusvæða í Victoria, þar sem 60 eldar loguðu, beðnir um að yfirgefa heimili sín. Þá hafa rúmlega 600 heimili orðið eldunum að bráð í New South Wales.

Ástralía er í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu Parísarsáttmálann og hétu þarlend stjórnvöld því að draga úr losun um 26-28% fyrir árið 2030, en losunin heldur hins vegar enn áfram að aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert