Segir kínversku leynilögregluna hafa pyntað hann

Ítrekað hefur komið til átaka milli óeirðalögreglu og mótmælenda í …
Ítrekað hefur komið til átaka milli óeirðalögreglu og mótmælenda í Hong Kong. AFP

Fyrrverandi starfsmaður bresku ræðismannsskrifstofunnar í Hong Kong fullyrðir að hann hafi sætt pyntingum í Kína og verið yfirheyrður af leynilögreglunni þar í landi um mótmælin sem nú hafa staðið yfir í Hong Kong í á sjötta mánuð.

CNN segir starfsmanninn fyrrverandi, Simon Cheng, hafa greint frá þessu í færslu á Facebook. Segist hann hafa verið í 15 daga ferðalagi í Kína í ágúst þegar hann var hnepptur í varðhald. Hann hafi svo verið barinn, bundið fyrir augu hans og hann bundinn í teygðri stöðu tímunum saman.

Sakar Cheng kínversku leynilögregluna í færslu sinni um að hafa ítrekað yfirheyrt hann um þátt breskra stjórnvalda í mótmælunum í Hong Kong, sem og um þátttöku hans sjálfs og vina hans.

CNN segir ásakanirnar kunna að kynda enn frekar undir spennu í borginni, þar sem ítrekað hefur komið til átaka milli óeirðalögreglu og mótmælenda.

Fullyrti Cheng enn fremur að kínverskir lögreglumenn hefðu sagt honum að hópar af mótmælendum hefðu verði gripnir og fluttir yfir til Kína, ásökun sem CNN segist ekki hafa getað staðfest.

Kínversk yfirvöld hafa ítrekað sakað Vesturlönd um afskipti af mótmælunum, m.a. bresk og bandarísk stjórnvöld.

Dominic Raab utanríkisráðherra Bretlands virðist að sögn CNN styðja margra fullyrðingar Cheng, en Raab sagði „misþyrmingarnar“ sem hann hefði sætt í varðhaldi „jafngilda pyntingum“. „Simon Cheng var virtur og vel liðinn starfsmaður okkar og það er áfall að heyra af misþyrmingunum sem hann sætti í kínversku varðahaldi,“ sagði Raab og kvaðst hafa boðað sendiherra Kína í Bretlandi á sinn fund til að lýsa yfir óánægju sinni með málið.

Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, segir kínversku öryggislögregluna tryggja að öllum lagalegum réttindum sé fylgt eftir, en þess utan hafi Cheng játað þátttöku sína í ólöglegu athæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert