Trump hunsaði ráð háttsettra embættismanna

Fiona Hill, fyrr­ver­andi sér­leg­ur ráðgjafi Trumps í mál­efn­um Rúss­lands sem …
Fiona Hill, fyrr­ver­andi sér­leg­ur ráðgjafi Trumps í mál­efn­um Rúss­lands sem sat í ör­ygg­is­ráði Banda­ríkj­anna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hunsaði ráð háttsettra embættismanna þegar hann sagði að Úkraínumenn hefðu skipt sér af forsetakosningunum vestanhafs árið 2016. Þetta kom fram í máli fyrrverandi ráðgjafa Trumps.

Fiona Hill, fyrr­ver­andi sér­leg­ur ráðgjafi Trumps í mál­efn­um Rúss­lands sem sat í ör­ygg­is­ráði Banda­ríkj­anna, sat í kvöld fyr­ir svör­um á fundi þing­manna­nefnd­ar full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings þar sem meint embættisbrot forsetans eru rannsökuð.

Hill sagði að Trump hefði þess í stað notið ráðgjafar lögmanns síns, Rudy Giuliani. Hún sagði að orðrómur um að Úkraínumenn hefðu skipt sér af kosningunum væri algjörlega úr lausu lofti gripinn.

„Sannleikurinn er sá að Rússar voru það erlenda ríki sem réðst kerfisbundið á stofnanir okkar fyrir kosningarnar árið 2016,“ sagði Hill. Hún bætti því að Rússar væru að búa sig undir svipað vegna forsetakosninganna á næsta ári.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Rann­sókn­in er til kom­in vegna meintra til­rauna Trump til að þrýsta á úkraínsk yf­ir­völd að hefja rann­sókn á Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkj­anna og nú­ver­andi for­setafram­bjóðanda. 

Það er ólöglegt vestanhafs að sækja sér aðstoð út fyrir Bandaríkin til að notfæra sér í eigin tilgangi í kosningum, eins og talið er að Trump hafi ætlað sér að gera. Forsetinn segist ekki hafa gert neitt rangt.

Óljósar heimildir hafa bent til þess að það hafi verið Úkraínumenn sem voru með puttana í kosningunum fyrir þremur árum en ekki Rússar. Trump bað Volodimír Zelenskí, for­seta Úkraínu, að kanna þessar ásakanir sem og rannsaka einn sinn helsta pólitíska andstæðing; Joe Biden.

Hill sagði að það væri ljóst að forseti Úkraínu hefði verið beittur þrýstingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert