Ákærður fyrir stuld á viðskiptaleyndarmálum

Maðurinn starfaði hjá Monsanto þar til Bayer keypti fyrirtækið.
Maðurinn starfaði hjá Monsanto þar til Bayer keypti fyrirtækið. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa ákært kínverskan ríkisborgara fyrir stuld á viðskiptaleyndarmálum. Maðurinn starfaði fyrir fyrirtækið Monsanto, áður en lyfja- og efnarisinn Bayer AG keypti fyrirtækið.

Reuters-fréttaveitan hefur eftir dómsmálaráðuneytinu að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að stela viðskiptaleyndarmálum fyrir Kína.

Maðurinn Haitao Xiang, sem starfaði hjá Monsanto og dótturfyrirtæki þess Climate Corp á árunum 2008-2017, var stöðvaður á bandarískum flugvelli er hann var á leið í flug til Kína. Er hann sagður hafa verið með einkaréttarvarinn landbúnaðarhugbúnað í fórum sínum.

„Ákæran er enn eitt dæmi um að kínversk stjórnvöld noti „Talent Plan“-áætlunina til að hvetja starfsfólk til að stela einkaréttarvörðu efni frá bandarískum vinnuveitendum sínum,“ sagði John Demers aðstoðardómsmálaráðherra.

Eric Selig, lögfræðingur Xiang, segir hann munu lýsa sig saklausan þegar málið verður tekið fyrir.

Kínversk stjórnvöld kynntu árið 2008 svonefnda „þúsund hæfileika áætlun“ (e.Thousand Talents Plan) sem var ætlað að fá vísindamenn til starfa. Hafa bandarísk stjórnvöld sagt áætlunina vera ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

„Xiang kynnti sig fyrir kínverskum stjórnvöldum á grunni reynslu sinnar hjá Monsanto,“ sagði Demers. „Innan við ári eftir að hann var ráðinn sem nýr liðsmaður „Talent Plan“ hætti hann í vinnunni og keypti miða til Kína aðra leiðina. Hann var gripinn á flugvellinum með eintak af einkaréttarvörðu reikniriti fyrirtækisins, áður en honum tókst að láta það hverfa.“

Bandarísk stjórnvöld hafa lengi sakað Kína um að stela einkaréttarvörðu efni og tækni og eru þessar ásakanir eitt helsta bitbeinið í viðskiptadeilu ríkjanna.

„Það skiptir engu hvort viðkomandi sé kínverskur ríkisborgari eða bandarískur. Ef hann brýtur lög og ef Bandaríkjamenn hafa tekið á málinu af réttlæti og samkvæmt lögum mótmælum við ekki,“ sagði Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Kínversk stjórnvöld mótmæli því hins vegar að bandarísk stjórnvöld noti þetta eina dæmi sem yfirvarp til að fullyrða að kínversk yfirvöld séu með hópa sem skipuleggi þjófnað á einkaréttarvörðu efni frá Bandaríkjunum.

„Tækniframfarir Kína eru ekki til komnar vegna þjófnaðar,“ sagði Geng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert