Fundu og földu víkingagull fyrir hátt í hálfan milljarð króna

Myndin sýnir myntir frá tíma víkinga, þó ekki þær sem …
Myndin sýnir myntir frá tíma víkinga, þó ekki þær sem fundust í Herefordskíri árið 2015.

Tveir menn sem leituðu fornleifa í Bretlandi með málmleitartækjum hafa verið dæmdir fyrir að hafa stolið gullsjóði frá tíma víkinga sem metinn er á þrjár milljónir punda, hátt í hálfan milljarð króna. Þetta kemur fram í Telegraph í dag og þar segir að mennirnir tveir hafi ekki gefið upp „ómetanlegt“ safn af 1100 ára gömlum fjársjóði frá tíma Elfráðs hins ríka, eins og Alfred the Great er nefndur í Landnámabók.

Uppgröfturinn átti sér stað í Herefordskíri fyrir fjórum árum og að sögn saksóknara voru hlutirnir sem fundust engilsaxneskir og dæmigerður víkingasjóður. Þeir sem grófu upp sjóðinn gáfu aðeins upp lítinn hluta hans, því samkvæmt myndum sem fundust í síma annars þeirra hafa þeir falið mikinn meirihluta myntanna. Lögum samkvæmt ber að gefa upp slíkan fund.

Þá er talið að mennirnir hafi selt hluta sjóðsins á svarta markaðnum og áformi að selja hann smám saman með þeim hætti, en þrátt fyrir myndirnar á símanum neita þeir að sjóðurinn hafi verið jafn stór og ákæruvaldið hélt fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert