Móðir fundin sek um hryðjuverk

Konan var dæmd til fangelsisvistar eftir að hún gekk til …
Konan var dæmd til fangelsisvistar eftir að hún gekk til liðs við Ríki íslams. AFP

Frönsk kona, sem fór með börnin sín þrjú til Sýrlands og gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams fyrir fimm árum, var í dag dæmd í 14 ára fangelsi í París. 

Jihane Makhzoumi var fundin sek um hryðjuverk og fyrir að vanrækja börnin sín. Í dómsal var hún sögð gegna veigamiklu hlutverki innan hryðjuverkasamtakanna.

Dómarar sögðu við dómsuppkvaðningu að ekkert minna en þungur dómur dygði við aðstæður eins og þessar.

Makhzoumi yfirgaf Frakkland ásamt eiginmanni sínum, þremur börnum og dóttur hans af fyrra sambandi. Samkvæmt frétt AFP féll maðurinn í átökum í Sýrlandi og dóttir hans varð eftir í Sýrlandi.

Makhzoumi var handtekin á flugvelli í París þegar hún sneri aftur með börnin þrjú fyrir þremur árum síðan.

Saksóknari sagði fyrir dómi að Makhzoumi sýndi öðru fólki enga samkennd og að hún væri ótrúlega sjálfhverf. Líf barnanna hennar hefði skipt litlu máli, eina sem hefði skipt máli væri verkefnið með hryðjuverkasamtökunum.

Makhzoumi virtist mjög brugðið þegar dómur var kveðinn upp og lögmaður hennar sagði hann óásættanlegan og að honum yrði áfrýjað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert