„Ég hata ekki nokkurn mann“

„Sem kaþólikki þá er mér illa við að þú notir …
„Sem kaþólikki þá er mér illa við að þú notir orðið „hatur“ í setningu sem beint er að mér. Ég hata engan, ég var alin upp til þess að vera með hjarta fullt af ást og bið alltaf fyrir forsetanum. Og ég bið enn fyrir forsetanum. Ég bið sífellt fyrir forsetanum,“ sagði Pelosi í dag. AFP

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, brást reið við á blaðamannafundi í dag er fréttamaður spurði hana hvort hún hataði Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Ég hata ekki nokkurn mann, ekki neinn í heiminum,“ sagði Pelosi við fréttamanninn, en er spurningin var borin upp hafði Pelosi áður tilkynnt að fulltrúadeildin ætlaði sér að leggja fram ákæru á hendur forsetanum.

„Sem kaþólikki þá er mér illa við að þú notir orðið „hatur“ í setningu sem beint er að mér. Ég hata engan, ég var alin upp til þess að vera með hjarta fullt af ást og bið alltaf fyrir forsetanum. Og ég bið enn fyrir forsetanum. Ég bið sífellt fyrir forsetanum,“ sagði Pelosi, sem bað fréttamanninn svo um að vera ekki að abbast upp á sig (e. don‘t mess with me) með því að leggja svona spurningu fyrir hana. Sjá má þessi orðaskipti hér að neðan.


Trump segist ekki trúa því að hann sé í bænum Pelosi

Donald Trump var ekki lengi að bregðast við þessum ummælum Pelosi. „Nancy Pelosi var að fá taugaáfall rétt í þessu,“ ritaði forsetinn á Twitter-síðu sína. „Hún hatar að við munum brátt fá 182 frábæra nýja dómara og svoooo margt til viðbótar. Hlutabréfamarkaðinn og atvinnuþátttökutölurnar. Hún segist „biðja fyrir forsetanum“. Ég trúi henni ekki, ekki nærri því,“ skrifaði forsetinn og sagði að Pelosi ætti að einbeita sér að því að hjálpa heimilislausum í hennar eigin kjördæmi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau Pelosi og Trump skiptast á skotum og ólíklega það síðasta, enda tilkynnti Pelosi í dag að ákæra á hendur Trump yrði borin undir þingmenn fulltrúadeildarinnar, mögulega fyrir jól.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók þátt í að tendra jólatré í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti tók þátt í að tendra jólatré í Washington í dag. Mögulegt er að fulltrúadeild Bandaríkjaþings verði búin að ákæra hann fyrir embættisafglöp áður en jólahátíðin gengur í garð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert