Hátt í milljón manns mótmæltu í Frakklandi

Mótmælendur eru ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunakerfi Frakklands.
Mótmælendur eru ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunakerfi Frakklands. AFP

Umfangsmiklar verkfallsaðgerðir í Frakklandi, þær stærstu árum saman, hafa lamað stóran hluta landsins í dag. Skólum hefur verið lokað og samgöngur hafa farið úr skorðum.

Tilefni mótmælanna eru fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunakerfi Frakklands. Breytingarnar fela það í sér að fólk sé skyldað til þess að fara síðar á eftirlaun en áður eða þurfa að öðrum kosti að sæta skerðingu á eftirlaunum. 

Starfsmenn skóla og almenningssamgangna, lögreglan, starfspenn spítala og flugvalla og lögfræðingar tóku þátt í vinnustöðvuninni í dag. 

Mótmælandi flýr táragas lögreglu í París í dag.
Mótmælandi flýr táragas lögreglu í París í dag. AFP

Klukkan 16 að staðartíma, 15 að íslenskum tíma, voru mótmælendur orðnir 450.000 talsins í um 40 borgum í Frakklandi, að frátaldri Parísarborg. Áætlað er að í París hafi um 250.000 manns tekið þátt í mótmælunum. Samkvæmt BBC hafa 87 mótmælendur verið handteknir. 

Þá hefur vinsælum ferðamannastöðum í höfuðborginni á borð við Eiffel-turninn og Versali verið lokað. 

Hátt í 100 manns hafa verið handteknir í dag.
Hátt í 100 manns hafa verið handteknir í dag. AFP

Síðasta áratuginn hefur eftirlaunaaldur í Frakklandi hækkað um tvö ár og er nú 62 ár. Eftirlaunaaldur í Frakklandi er nokkuð lágur miðað við önnur OECD ríki, en hann er til að mynda 66 ár í Bretlandi, hvar fyrirhugað er að hækka hann um að minnsta kosti eitt ár.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert