Njósnaði um milljónir farþega

Norska öryggislögreglan PST liggur undir ámæli eftirlits- og greiningarnefndar norska …
Norska öryggislögreglan PST liggur undir ámæli eftirlits- og greiningarnefndar norska Stórþingsins fyrir að safna upplýsingum um milljón farþega norskra flugfélaga á ári í trássi við lög. Ljósmynd/Úr safni

Eftirlits- og greiningarnefnd norska Stórþingsins, EOS (n. Stortingets kontrollutvalg for etterretnings-, overvåkings- og sikkerhetstjeneste), liggur öryggislögreglunni PST (n. Politiets sikkerhetstjeneste) á hálsi að hafa fylgst ólöglega með ferðalögum einnar milljónar farþega norska flugfélagsins Norwegian og fleiri félaga á ári, innan lands sem utan, gegnum bókunarkerfi og farþegalista.

Gerir EOS grein fyrir niðurstöðum sínum og sjónarmiðum í fréttatilkynningu í morgun sem norskir fjölmiðlar hafa nú til umfjöllunar. Fram kemur að PST hafi haft ótakmarkaðan aðgang að bókunarkerfi Norwegian og þaðan fengið upplýsingar um nafn farþega, pöntunartíma, farartíma, áfangastaði, greiðslur og jafnvel greiðslukortanúmer, sex fyrstu og fjóra síðustu tölustafi.

Í ofanálag fékk öryggislögreglan að vita um netföng, símanúmer, bókunarnúmer og ferðafélaga farþegans á sama bókunarnúmeri. Að öllu þessu hafði PST aðgang 18 mánuði aftur í tímann og þrjá fram í tímann.

Náði til einnar milljónar farþega ár hvert

„Við teljum söfnun þessara upplýsinga hafa verið — og vera — ólöglega. Nefndin gagnrýnir PST aukinheldur fyrir málsmeðferðina,“ skrifar Svein Grønnern nefndarformaður í fréttatilkynningunni og segir nefndina hafa sent Stórþinginu skýrslu sína um málið þar sem fjögur atriði vegi þyngst:

PST hafi í heimildarleysi útvegað sér upplýsingar um mikinn fjölda norskra og erlendra farþega í flugi innan lands sem utan.

PST hafi reglubundið fengið átta önnur flugfélög til að láta af hendi farþegalista. Slík reglubundin upplýsingasöfnun samræmist ekki lögum. Upplýsingarnar hafi verið geymdar mánuðum saman. Ætla má að upplýsingasöfnunin hafi náð til alls einnar milljónar farþega á ári þann tíma sem hún nær yfir.

PST hafi dýpkað eftirlit sitt með því að sækja upplýsingar um ferðalög norskra farþega erlendis, jafnvel eftir að nefndin gagnrýndi öryggislögregluna árið 2014 í máli sem þá kom upp og lagaheimild um sambærilega upplýsingasöfnun var ekki talin liggja fyrir.

PST hafi að lokum ekki viðhaft fullnægjandi eftirlit innanhúss né haldið skrá yfir þau gögn sem sótt voru frá flugfélögunum.

Segjast þurfa upplýsingarnar

Hans Sverre Sjøvold, yfirmaður PST, svarar ákúrum EOS-nefndarinnar með því að öryggislögreglan sé ekki að öllu leyti sammála nefndinni. Ágreiningur hafi áður ríkt um hvort lagaheimild væri fyrir hendi til að safna slíkum upplýsingum og hafi PST nú látið af söfnuninni auk þess að leggjast í endurskoðun verklagsreglna til að tryggja að eftirlit með flugfarþegum fari fram með fullnægjandi hætti.

„PST tekur gagnrýninni mjög alvarlega. Þjónustan skal haga sinni stjórnsýslu svo, að hún sé í samræmi við lög á hverjum tíma [...] PST er þörf á upplýsingum af þessu tagi svo fyrirbyggja megi hryðjuverk og aðra alvarlega glæpastarfsemi, en aðgangur, geymsla og meðferð [gagnanna] skal að sjálfsögðu vera innan þeirra lagalegu heimilda sem stofnuninni eru veittar,“ segir í yfirlýsingu PST.

Svein Grønnern nefndarformaður segir í samtali við norska dagblaðið VG í dag að það sé einkum hið mikla umfang málsins sem ljái því grafalvarlega umgjörð. „Mörg rök hníga að því að leynileg þjónustustofnun hafi aðgang að upplýsingum um líf okkar, en fyrir slíku þarf að vera skýr lagaheimild. Ekki síður er það alvarlegt að PST getur ekki lagt fram skrifleg gögn um hvernig vinnu hennar við farþegalistana var háttað auk þess sem okkur hafa ekki borist fullnægjandi skýringar á því hvernig aðgangurinn að bókunarkerfi Norwegian kom til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert