Umdeild skólasókn fíkniefnahunda

Sænska lögreglan hefur einnig farið með fíkniefnaleitarhunda í skóla og …
Sænska lögreglan hefur einnig farið með fíkniefnaleitarhunda í skóla og er myndin tekin Svíþjóðarmegin. Nágrannar hennar í Noregi leggja nú lokahönd á nýjar verklagsreglur vegna umdeildra fíkniefnaleita með hundum í norskum framhaldsskólum síðustu ár. Ljósmynd/Lögreglan í Jämtland

„Vinnan er nú á lokastigi og stefnt að því að verklagsreglurnar berist lögregluembættunum fyrir áramót,“ segir Kristin Elnæs, sviðsstjóri hjá embætti ríkislögreglustjóra í Noregi, og greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá nýjum reglum um notkun fíkniefnaleitarhunda í framhaldsskólum sem ekki hefur verið með öllu ádeilulaus vegna mála sem upp hafa komið síðustu ár.

Umræða um heimildir lögreglu til að fara um framhaldsskóla með fíkniefnahunda sína blossaði upp í framhaldsskóla í Florø í Sognsæ og Firðafylki í fyrra þegar 14 lögregluþjónar mættu með tvo hunda í skólann 1. nóvember til að halda fræðslufund með nemendum um skaðsemi fíkniefna.

Ekki vildi þá betur til en svo að hundarnir merktu á tvo nemendur á almenningssvæði í skólanum, það er að segja gáfu til kynna að af þeim væri fíkniefnalykt, sem varð til þess að nemendurnir voru handteknir og húsleit gerð heima hjá þeim þar sem áhöld til neyslu fundust.

Á síðari stigum málsins kom í ljós að skólayfirvöld höfðu, í samráði við lögreglu og án þess að nemendum væri gert aðvart, undirbúið heimsóknina og auk þess útbúið sérstakt herbergi í skólanum til fíkniefnaleitar færi svo að hundarnir gerðu athugasemdir við einstaka nemendur. Sagði Knut Clausen skólastjóri þá við NRK að lögregla hefði haft samband við hann og skipulagt heimsókn í kjölfar máls sem upp kom í bænum í október og sneri að töluverðu magni efnisins MDMA sem þá fannst í fórum unglingsstúlku og mbl.is greindi frá á sínum tíma.

Félag framhaldsskólanema í Noregi (n. Elevorganisasjonen) mótmælti aðgerðinni harðlega og fékk meðbyr fjölda lögfræðinga, þar á meðal Hans Fredrik Marthinussen, lagaprófessors við Háskólann í Bergen, sem sagði aðgerðina hreint út sagt ólöglega:

„Þarna er um svo gróft brot að ræða að það ætti að hafa afleiðingar fyrir lögregluþjónana sem þátt tóku í aðgerðinni,“ sagði Marthinussen við NRK. „Þeir hafa enga heimild til að leita á nemendum með fulltingi hunda á skólatíma, svo einfalt er það [...] Nemendurnir eiga ekki annarra kosta völ en að mæta í skólann,“ sagði prófessorinn.

Harðar deilur um framkvæmd árið 2013

Áður hafði þótt um þverbak keyra árið 2013 þegar lögregla heimsótti nokkra skóla með fíkniefnaleitarhunda án þess að það væri í tengslum við ákveðin fíkniefnamál eða sérstakur grunur lægi fyrir um fíkniefnabrot. Þá hafði foreldrum og forráðamönnum nemenda yngri en 18 ára verið boðið að skrifa undir yfirlýsingu um að þeir samþykktu „fyrirbyggjandi leit“ á börnum sínum á skólatíma og væri barninu þá frjálst að yfirgefa skólastofuna samþykktu foreldrar ekki leit.

Þótti landssamtökum nemenda þessi aðferðafræði hin versta, jafnvel brot á mannréttindasáttmála Evrópu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jon Wessel-Aas lögmaður kvartaði til dómsmálaráðuneytisins vegna fíkiefnaleitanna.

„Það er ástæða fyrir því að þú og ég eigum ekki að vera sett í þær aðstæður að lögregla geti sagt við okkur: „Jæja, nú langar mig að vita hvort þú angir af fíkniefnum,“ hvort heldur það sé heima hjá okkur, úti á götu eða í skólanum,“ sagði Wessel-Aas á sínum tíma, „og það verður líka að gilda um nemendurna.“

„Lítur út eins og þú hafir eitthvað að fela“

Lögmaðurinn taldi skriflegu yfirlýsinguna vafasama. „Þar er þeim [nemendum og forráðamönnum] tilkynnt að lögreglan kunni að koma í heimsókn og sýna hvernig fíkniefnaleitarhundar eru notaðir. Það er ekki það sem á sér stað,“ sagði hann og bætti því við að með þessu væru nemendur í raun settir í mun verri stöðu.

„Þetta gerist fyrirvaralaust. Lögreglan kemur í skólann án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir og segir að fólki sé í sjálfsvald sett hvort það taki þátt í þessu. Þú þarft þá að rétta upp hönd fyrir framan kennara og samnemendur og segja að þú viljir þetta ekki. Þar með líturðu út eins og þú hafir eitthvað að fela,“ útskýrir hann og bendir einnig á þann ótta sem leitin geti vakið hjá nemendum frá heimilum þar sem einhver annar notar fíkniefni.

Í kjölfar umræðunnar árið 2013 kvað dómsmálaráðuneytið upp úr með að skólaheimsóknum þessum skyldi hætt.

Biðja um skýrar reglur

Arne Johannessen, lögreglustjóri í Sognsæ og Firðafylki, segir aðgerðina í Florø í fyrra hafa sýnt að þörf væri á skýrum verklagsreglum um mörk fyrirbyggjandi aðgerða annars vegar og hreinna leitaraðgerða með fíkniefnahundum hins vegar. „Reglurnar eru skýrar þegar við erum úti á vettvangi í lögregluaðgerðum, en við biðjum um alveg klárar reglur frá ráðuneytinu hvað forvarnaaðgerðir snertir,“ segir hann við NRK.

Elnæs sviðsstjóri, sem nefnd er í upphafi fréttarinnar, játar að reglusetningin hafi tekið tímann sinn, en senn verði henni lokið. „Við teljum mikilvægt að litið sé á starf lögreglunnar almennt í samhengi við forvarnastarf í skólum. Þetta hefur tekið tíma, að hluta til vegna þess að við höfum þurft að vinna þetta í samstarfi við meðal annars yfirvöld heilbrigðis- og menntamála,“ segir Elnæs um nýju verklagsreglurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert