Bauð öllum bekknum að fylgjast með ættleiðingunni

Michael var sultuslakur í dómsalnum með kjörfeldrum sínum. Bekkjarsystkini hans …
Michael var sultuslakur í dómsalnum með kjörfeldrum sínum. Bekkjarsystkini hans fylgdust grannt með og sýndu honum stuðning í verki. Ljósmynd/Dómstóllinn í Kent-sýslu

Fimm ára gamall leikskóladrengur í Michigan-ríki í Bandaríkjunum ákvað að bjóða öllum bekkjarsystkinum sínum að vera viðstödd þegar gengið var frá ættleiðingu hans í dómshúsi í Kent-sýslu. 

Pilturinn, sem heitir Michael, varð lögformlega hluti af fjölskyldunni við athöfnina á fimmtudag. 

Dómstóllinn birti mynd á Facebook-síðu sinni þar sem Michael litli sést sitja afslappaður í stórum stól í dómsal við hlið kjörforeldra sinna. Fyrir aftan hann mátti sjá vini hans, en sum barnanna veifuðu pappahjörtum sem þau voru búin að útbúa.

Á meðan málið var tekið fyrir kynnti hvert og eitt barn sig og útskýrði hvers vegna þau væru komin til að fagna, segir í frétt á vef BBC.

„Michael er besti vinur minn,“ sagði einn drengur. 

„Ég heiti Lily og ég elska Michael,“ sagði lítil stúlka við dómarann, Patriciu Gardner, sem setti upp jólahálsmen í tilefni dagsins. 

„Við hófum skólaárið sem fjölskylda,“ sagði kennari Michaels. „Fjölskylda þarfnast ekki DNA, því fjölskylda er ást og stuðningur.“

Það brutust út fagnaðarlæti á meðal viðstaddra þegar dómarinn lauk máli sínu og sló í borðið með fundarhamrinum. Þar með var Michael litli formlega orðinn einn af fjölskyldunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert