Skutu nauðgara til bana

Brennum nauðgarana kölluðu þessir menn þar sem þeir mótmæltu kynbundnu …
Brennum nauðgarana kölluðu þessir menn þar sem þeir mótmæltu kynbundnu ofbeldi í Hyderabad. AFP

Indverska lögreglan skaut fjóra menn til bana í dag sem eru grunaðir um að hafa nauðgað og myrt unga konu í borginni Hyderabad í síðustu viku.

Fjórmenningarnir voru í haldi lögreglu og var verið að flytja þá á vettvang glæpsins í morgun þegar þeir reyndu að stela vopnum af lögreglu og flýja að vettvangi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Líkamsleifar konunnar, sem var 27 ára gömul, fundust illa brenndar á fimmtudaginn í síðustu viku. Gríðarleg reiði greip um sig meðal almennings enda fólk búið að fá nóg af kynbundnu ofbeldi í landinu. Þegar fréttir bárust af því í morgun að lögreglan hafi skotið menninga til bana fagnaði móðir ungu konunnar og sagði við fréttamann BBC að réttvísin hafi náð fram að ganga. Nágrannar fjölskyldunnar létu ekki sitt eftir liggja í fagnaðarlátunum, kveiktu í flugeldum og fagnaði. Þúsundir íbúa tóku þátt í göngu um götur borgarinnar þar sem framganga lögreglunnar var fagnað.

Mennirnir voru skotnir til bana í skotbardaga eftir að hafa reynt að flýja, segir aðstoðarlögreglustjórinn í borginni,PrakashReddy. 

AFP

Fjórmenningarnir voru sakaðir um að hafa nauðgað og myrt hana en konan, sem var dýralæknir, hafði lagt skellinöðru sinni við fjölfarna götu. Mennirnir sprengdu dekkin á skellinöðrunni og fengu hana til þess að koma á bílastæði fyrir flutningabíla þar skammt frá þar sem þeir ætluðu að laga vélhjólið fyrir hana.

En þess í stað nauðguðu þeir henni, drápu og kveiktu síðan í henni undir brú sem er úr alfaraleið.

Konan hafði náð að hringja í systur sína til að láta hana vita af ótta sínum við mennina sem hefðu boðist til að aðstoða hana. Skömmu síðar var slökkt á símanum. Eftir að fjórmenningarnir voru handteknir reyndu hundruð mótmælenda að komast inn á lögreglustöðina í Hyderabad þar sem þeir voru í varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert