Stefnir í tvísýnar þingkosningar í Bretlandi

Kosið verður til neðri deildar breska þingsins næsta fimmtudag 12. desember og eru kosningarnar mjög tvísýnar ef marka má niðurstöður nýjustu skoðanakannana. Flest hefur þótt benda til þess að Íhaldsflokkur Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands, muni ná meirihluta í neðri deildinni sem flokkurinn hefur ekki haft síðan í kosningunum 2017.

Hins vegar hefur bilið á milli fylgis Íhaldsflokksins og fylgis Verkamannaflokksins, sem Jeremy Corbyn fer fyrir, farið minnkandi að undanförnu. Aðallega vegna þess að Verkamannaflokkurinn hefur verið að bæta við sig fylgi. Ástæða þess er einkum talin sú að andstæðingar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa verið að færa sig yfir á Verkamannaflokkinn í von um að það sé besta leiðin til þess að koma í veg fyrir útgönguna.

Þannig hefur aukið fylgi Verkamannaflokksins einkum verið á kostnað Frjálslyndra demókrata sem eru alfarið á móti útgöngunni úr Evrópusambandinu en Verkamannaflokkurinn hefur í raun hvorki afgerandi stefnu gegn henni né með henni en vill semja upp á nýtt um útgönguna við sambandið og leggja þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Breskir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 að yfirgefa Evrópusambandið.

Misvísandi niðurstöður skoðanakannana

Johnson samdi í haust við Evrópusambandið um útgöngusamning og hyggst leggja hann fram til staðfestingar í neðri deildinni nái Íhaldsflokkurinn meirihluta í henni. Stefnan er þá á að Bretar yfirgefi sambandið formlega í lok janúar í síðasta lagi.

Þó skoðanakannanir bendi til þess að Íhaldsflokkurinn nái meirihluta hefur sá meirihluti sem spáð hefur verið farið minnkandi.

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ComRes gerði fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph bendir til þess að forskot flokksins á Verkamannaflokkinn sé aðeins 8% sem þýðir að samkvæmt útreikningum blaðsins að meirihlutinn verði einungis 12 þingmenn en samtals sitja 650 þingmenn í neðri deild breska þingsins.

Önnur skoðanakönnun, sem fyrirtækið Opinium gerði fyrir breska dagblaðið Guardian bendir hins vegar til þess að forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn sé 15%.

Takist Íhaldsflokknum ekki að tryggja sér meirihluta þingsæta gæti næsta ríkisstjórn orðið samsteypustjórn nokkurra flokka undir forystu Corbyns.

Jeremy Corbyn og Boris Johnson takast á í sjónvarpssal.
Jeremy Corbyn og Boris Johnson takast á í sjónvarpssal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert