Sagði af sér vegna ásakana um spillingu og kynferðislega misnotkun

Aimable Bayingana hefur sagt af sér vegna ásakana um spillingu …
Aimable Bayingana hefur sagt af sér vegna ásakana um spillingu og kynferðislega misnotkun. Ljósmynd/Twitter

Aimable Bayingana, forseti Hjólreiðasambands Rúanda, hefur sagt starfi sínu lausu í kjölfar fjölda ásakana um spillingu sem og kynferðislega misnotkun innan sambandsins. Stjórn hjólreiðasambandsins sagði einnig af sér í skugga málsins.

Bayingana hefur einnig verið talsmaður RPF-flokksins (Rwanda Patriotic Front) sem hefur stýrt landinu frá árinu 1994 undir forystu forseta landsins Paul Kagame.

Rannsóknardeild lögreglunnar í Rúanda rannsakar nú ásakanirnar á hendur þær snúa að starfsmönnum hjólreiðasambandsins sem eru sagðir hafa misnotað kynferðislega íþróttakonur innan hjólreiðahreyfingarinnar. Hjólreiðasambandið hefur neitað að tjá sig um málið en það er einnig komið inn á borð íþróttamálaráðherra landsins.

„Afsagnirnar áttu sér stað í gærkvöldi og við erum að rannsaka þær ásakanir sem fram hafa komið. Í ljósi þess að um mögulega glæpi er að ræða getum við ekki tjáð okkur frekar um málið heldur setjum málið í hendur rannsóknardeildar lögreglunnar og leyfum henni að vinna sína vinnu,“ sagði Shema Maboko, ráðuneytisstjóri íþróttamálaráðuneytis Rúanda við AFP-fréttastofuna.

„Við erum meðvituð um að kynferðisofbeldi og spilling eigi sér stað en okkar markmið er að berjast gegn slíkri hegðun og við erum ákveðin í því,“ bætti Maboko við.

Málið þykir mikið hneyksli enda er hjólreiðaíþróttin mjög stór og vinsæl í landinu. Til stendur að innleiða sérstaka reglugerð innan íþróttahreyfingarinnar til að taka á kynferðisbrotamálum í framtíðinni.

Hneykslið kom innan hjólreiðasambandsins eftir að fyrrum landsliðsþjálfarar Rúanda Jonathan „Jock“ Boyer og Kimberly Coats lentu upp á kant við Bayingana og upplýstu um misnotkunina innan hjólreiðasambandsins.

Í opnu bréfi sem Boyer skrifaði sakaði hann Bayingana um hroka, misbeitingu valds, slæma framkomu við íþróttafólk og að misnota kvenkyns hjólreiðamenn kynferðislega.

Rannsókn á ásökununum hófst í kjölfarið. Margar íþróttakonur innan hreyfingarinnar eru sagðar vera fátækar og ómenntaðar.

Uppfært:

Í upprunalegri frétt AFP-fréttastofunnar um málið kom fram að ásakanirnar beindust að Bayingana. Það var síðar leiðrétt og hefur einnig verið gert í þessari frétt. Ásakanirnar beindust að ónefndum starfsmönnum innan Hjólreiðasambands Rúanda en ekki Bayingana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert