Óttast mannfall á eldfjallaeyju

Gömul mynd af eldfjallaeyjunni, White Island.
Gömul mynd af eldfjallaeyjunni, White Island. AFP

Lögreglan á Nýja-Sjálandi segir að fimm séu látnir og búast megi við að þeir séu mun fleiri eftir að eldgos hófst óvænt á vinsælli ferðamannaeyju. Tugir eru fastir á eyjunni vegna gossins. Tala látinna var uppfærð klukkan 8:25.

John Tims aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur staðfest eitt andlát á eyjunni við fjölmiðla. Enn sé talsverður hópur á eyjunni sem ekki er vitað hvar er. Eins og staðan er núna er of hættulegt fyrir lögreglu og björgunarsveitir að fara til eyjarinnar og freista þess að bjarga fólkinu.

Myndir teknar úr vefmyndavél af eldgosinu í dag á eyjunni.
Myndir teknar úr vefmyndavél af eldgosinu í dag á eyjunni. AFP

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, staðfestir að einhverjir þeirra sem voru á eyjunni séu útlendingar. „Við vitum að það var hópur ferðamanna á eyjunni þegar eldgosið hófst, bæði Ný-Sjálendingar og erlendir gestir,“ segir hún. 

BBC segir að 20 ferðamenn sem voru á eyjunni White Island (Whakaari) hafi ekki gefið sig fram. Myndir úr öryggismyndavélum sýna að fólk var á gangi í gígnum á eldfjallinu rétt áður en gosið hófst. Eyjan er skammt frá Norðureyju og er eldfjallið þar eitt virkasta eldfjall Nýja-Sjálands. Þrátt fyrir það er eyjan vinsæll áfangastaður ferðamanna sem fara þangað í dagsferðir og útsýnisflug yfir eyjuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert