Boris Johnson kaus ekki sjálfan sig

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, yfirgefur kjörstað í …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, yfirgefur kjörstað í London í morgun. AFP

Boris Johnson, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, varð í morgun fyrsti forsætisráðherra Bretlands síðan Margaret Thatcher gegndi embættinu til þess að kjósa ekki sjálfan sig. Johnson kaus þannig ekki í kjördæmi sínu, Uxbridge and South Ruislip, heldur í Westminster í London, höfuðborg landsins.

Fréttaljósmyndarar tóku myndir af forsætisráðherranum í morgun þar sem hann greiddi atkvæði í London en þingkosningar fara fram í Bretlandi í dag. Vonast Johnson til þess að Íhaldsflokkurinn nái meirihluta í neðri deild breska þingsins sem flokkurinn hefur ekki haft frá því að síðast var kosið til þingsins 2017.

Talsmenn Íhaldsflokksins segja að forsætisráðherrann hafi kosið að greiða atkvæði í London fremur en í kjördæmi sínu þar sem það hafi hentað honum betur. Forverar Johnsons hafa allir kosið í eigin kjördæmi eftir valdatíð Thatchers; Theresa May, David Cameron, Gordon Brown og Tony Blair.

Fjallað er um þetta á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir enn fremur að ákvörðun Johnsons þyki ekki síst athyglisverð þar sem sótt sé að honum í kjördæmi hans. Hugsanlegt sé talið að frambjóðandi Verkamannaflokksins, Ali Milani, gæti sigrað forsætisráðherrann í kosningunum.

Stuðningsmenn áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu hafa hvatt fólk sem er sama sinnis til þess að sameinast um að kjósa Ali. Fréttir herma að fólk hafi skráð sig til heimilis í kjördæminu sérstaklega til þess að reyna að koma í veg fyrir að Johnson verði endurkjörinn. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, kaus hins vegar í morgun í kjördæmi sínu Islington North í London.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, við kjörstað í morgun.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, við kjörstað í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert