Sækja líkamsleifar á Hvítueyju

Lögreglan á Nýja-Sjálandi ætlar að freista þess að sækja lík þeirra sem fórust í eldgosi á Hvítueyju í fyrramálið. Miklar líkur eru á öðru gosi fljótlega og segir lögregla að unnið verði hratt.

Talið er að átta hið minnsta séu á eyjunni og eru engar líkur á að þeir séu á lífi. Átta til viðbótar eru látnir og 20 eru á gjörgæslu vegna brunasára sem þeir hlutu þegar gosið hófst skyndilega. Tugir ferðamanna voru á eyjunni þegar eldgosið hófst og sumir þeirra ofan í gígnum.

Samkvæmt GeoNet, náttúruvár-upplýsingasíðu Nýja-Sjálands, eru 50-60% líkur á öðru eldgosi innan sólarhrings. 

Örvænting fjölskyldna þeirra sem enn eru á eyjunni eykst með degi hverjum og að sögn lögreglu verður allt gert til þess að koma líkamsleifum þeirra heim í fyrramálið. 

Á blaðamannafundi í dag sagði Mike Clement aðstoðaryfirlögregluþjónn að yfirvöld hafi samþykkt áætlun um að sækja líkamsleifarnar þrátt fyrir hættuna á öðru eldgosi. „Vonum að það verði engin mistök gerð,“ sagði hann. „Þetta er ekki hættulaus áætlun.“

Átta sérfræðingar úr nýsjálenska hernum munu í fyrramálið fara á Hvítueyju og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sækja líkamsleifar allra þeirra sem þar eru. Lögreglan hefur farið í eftirlitsflug yfir eyjuna og þannig hefur tekist að finna sex lík. Ekki er vitað hvar lík tveggja eru og afar takmarkaðir möguleikar eru á að leita ítarlega. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert