Bretland keppinautur í bakgarðinum

Angela Merkel Þýskalandskanslari á leiðtogafundi Evrópusambandsins í dag.
Angela Merkel Þýskalandskanslari á leiðtogafundi Evrópusambandsins í dag. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að Bretar verði „efnahagslegur keppinautur í bakgarði Evrópusambandsins“ (e. economic competitor at out door) eftir að ríkið yfirgefur sambandið. Merkel ræddi við Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í morgun þar sem hún óskaði honum til hamingju með yfirburðasigur í kosningunum.

Leiðtogafundur Evrópusambandsins stendur nú yfir í Brussel. Í frétt AFP segir að leiðtogarnir hafi áhyggjur af þeim nauma tíma sem er til stefnu, en stefnt er að því að Bretar gangi úr sambandinu 31. janúar. Hafa leiðtogarnir lagt áherslu á að Bretar viðurkenni „evrópsk viðmið“ við útgönguna.

Ýmsir breskir stuðningsmenn útgöngunnar vilja að Bretar nýti tækifærið við útgönguna og lækki skatta og aflétti reglugerðum, með það fyrir augum að glæða viðskipti, og hefur Singapúr verið nefnt sem fyrirmynd í þeim efnum. Hafa aðrir áhyggjur af því að slíkt gæti leitt til félagslegra undirboða milli Evrópusambandsríkja og Breta einkum á sviði umhverfis- og vinnulöggjafar.

„Það verður keppinautur í bakgarðinum okkar ... sem gæti hvatt okkur til að hraða ákvörðunum okkar,“ sagði Merkel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert