Mótmæla „and-múslímskum“ lögum

Stúdentar Jamia Millia Islamia háskólans mótmæla.
Stúdentar Jamia Millia Islamia háskólans mótmæla. AFP

Mótmæli á Indlandi gegn nýjum lögum um ríkisborgararétt breiddust enn frekar út í dag. Lögin eru sögð andstæð múslimum. Í gær skaut lögregla tvo til bana á mótmælum í norðausturhluta Indlands.

Lögregla beitti kylfum og táragasi í átökum sínum við hundruð námsmanna í Delí í gær og var myndefni af því birt í sjónvarpi. Mótmæli voru haldin á fleiri stöðum, til dæmis í Kolkata í Kerala og í Gujarat, heimaríki Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.

Á fimmtudagskvöld voru 26 mótmælendur lagðir inn á sjúkrahús með skotsár í borginni Guwahati í norðausturhluta Indlands eftir átök við lögreglu. Þar af létust tveir. Það varð til þess að Modi og japanski kollegi hans Shinzo Abe urðu að fresta leiðtogafundi á svæðinu sem átti að halda næsta sunnudag.

Tvær konur senda skilaboð til ríkisstjórnarinnar á hálsklútum.
Tvær konur senda skilaboð til ríkisstjórnarinnar á hálsklútum. AFP

Slóð eyðileggingar

Fjórir af þeim særðu eru enn í lífshættu en skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Genf hefur nú hvatt Indland til að „virða réttinn til þess að halda friðsamlega samkomu og hlíta alþjóðlegum viðmiðum og stöðlum um valdbeitingu þegar brugðist er við mótmælum.“

Fólk safnast saman við líkfylgd hins átján ára gamla Sam …
Fólk safnast saman við líkfylgd hins átján ára gamla Sam Stafford sem lést í skotárás lögreglu á mótmælendur. AFP

Óeirðirnar hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar. Ökutæki hafa verið gjöreyðilögð, vegatálmar settir upp, bál kveikt og grjóti kastað í óeirðalögreglu sem studd er af hernum. 

Mótmælendurnir rísa upp gegn frumvarpi sem samþykkt var í vikunni og lýtur að breytingum á lögum um ríkisborgararétt. Breytingarnar eru til þess fallnar að flýta umsóknum trúarlegra minnihlutahópa frá Pakistan, Afganistan og Bangladess en ekki umsóknum múslima. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert