Fjalla um skattaskýrslur Trump í Hæstarétti

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur samþykkt að taka fyrir kröfur um að skattaskýrslur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta verði gerðar opinberar, sem og önnur gögn sem tengjast fjármálum hans.

Trump hefur reynt að koma í veg fyrir að skattaskýrslurnar og önnur gögn hans verði gerð opinber. Saksóknarar í New York og nefndir þar sem demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings vilja að þær líti dagsljósið.

Hæstiréttur Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna. AFP

Lægri dómstólar hafa úrskurðað að Trump eigi að láta skjölin af hendi en lögfræðingar hans afrýjuðu til Hæstaréttar og sögðu að sem æðsti framkvæmdastjóri landsins nyti hann friðhelgi.

„Við erum ánægð með að Hæstiréttur vill skoða þessi þrjú mál sem tengjast forsetanum,“ sagði Jay Sekulow, persónulegur lögfræðingur Trumps, í yfirlýsingu. „Í þessum málum er velt upp mikilvægum efnum í stjórnarskránni. Við hlökkum til að leggja fram vitnisburð okkar, bæði skriflegan og munnlegan.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hæstiréttur, þar sem íhaldssamir dómarar eru í meirihluta, ætlar að taka kröfurnar fyrir í mars og verður ákvörðun í málinu tekin fyrir 30. júní.

Tveir af dómurunum níu voru skipaðir af Trump, eða þeir Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh.

Málið gæti haft áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en kosið verður í nóvember á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert