Fyrsta skikkja Súpermanss til sölu

Skikkjan sem er til sölu þykir einkar sérstök.
Skikkjan sem er til sölu þykir einkar sérstök. AFP

Allra fyrsta skikkja Súpermanns og pípa Bilbós Bagga eru á meðal þess sem fæst á uppboði fágætra muna í Hollywood í næstu viku. Búist er við því að hvort um sig muni fara á 100-200 þúsund dali eða sem nemur 12-25 milljónum íslenskra króna. 

Hlutirnir eru á meðal 400 einstakra hluta úr kvikmyndaheiminum sem verða til sölu á uppboði sem haldið verður á mánudaginn. Jason DeBord, talsmaður uppboðsins, sagði við fréttastofu AFP að það væri mjög óalgengt að finna svo einkennandi muni úr fyrstu Súpermannmyndinni sem kom út árið 1978. 

„Þetta er kvikmynd sem mörgum er annt um, Christopher Reeve var ótrúlegur í henni. Það hefur enginn verið eins frábær Súpermann og hann var,“ sagði DeBord. „Kápan gæti selst á nokkur hundruð þúsund dollara en verðið gæti líka farið í hátt í hálfa milljón dollara.“

Pípa Bilbó Bagga er fremur heilleg og kostar sitt.
Pípa Bilbó Bagga er fremur heilleg og kostar sitt. AFP

Munir úr Júragarðinum og Forrest Gump falir

Pípuna sem um ræðir reykti Ian Holm í kvikmyndinni Fellowship of the Ring en hún er eini hluturinn úr myndinni sem vitað er um að sé í höndum safnara. 

Bilbó notaði pípuna til þess að blása frá sér reykhringjum úr „fínasta grasi á Suðurfarþingi“, áður en Gandálfur stal af honum senunni með margbrotinni reykútöndun sinni. 

Auk muna úr Súpermann og Hobbitanum verða til sölu munir úr Stjörnustríði, Forrest Gump, Júragarðinum, Gone with the Wind og Maltese Falcon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert