Kafarar leita enn á Nýja-Sjálandi

Frá björgunarstarfi á Nýja-Sjálandi en myndin var tekin í gær …
Frá björgunarstarfi á Nýja-Sjálandi en myndin var tekin í gær þegar verið var að sækja lík þeirra sem fórust. AFP

Kafarar leita í sjónum í kringum Nýja-Sjáland að tveimur manneskjum sem er saknað, fimm dögum eftir að eldgos varð á Hvítueyju. Sautján hafa fundist látnir.

Að sögn lögreglustjórans Johns Tims þurfa kafararnir að glíma við „einstakar og erfiðar aðstæður“ við leitina, enda sjá þeir lítið sem ekkert fram fyrir sig. Talaði hann um núll til tvo metra í því samhengi.

Kafararnir leita á svæði þar sem lík sást fljóta í sjónum fyrr í vikunni.

Fórnarlambanna minnst 

Einnar mínútu þögn verður á Nýja-Sjálandi á mánudaginn, viku eftir að eldgosið varð, að ósk Jacindu Ardern forsætisráðherra, til minningar um fórnarlömbin.

„Saman getum við túlkað sorg okkar vegna þeirra sem hafa látist og slasast og sýnt fjölskyldum þeirra og vinum stuðning,“ sagði Ardern.

Alls voru 47 á eyjunni þegar eldgosið varð. Auk þeirra 17 sem eru látnir liggja 27 á sjúkrahúsi, þar af 20 alvarlega slasaðir.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert