Látinn laus í annað sinn

Maðurinn er meðal þeirra 20 sem danska lögreglan handtók á …
Maðurinn er meðal þeirra 20 sem danska lögreglan handtók á miðvikudag. AFP

Karlmaður hefur verið látinn laus úr haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn í annað sinn á 28 klukkustundum. Maðurinn var meðal þeirra sem lögregla handtók á miðvikudag í tengslum við rannsókn á yfirvofandi hryðjuverkahættu, en hann var grunaður um brot á vopnalögum. Honum var sleppt úr haldi um hádegisbil í gær, föstudag, eftir yfirheyrslu.

Hann var handtekinn aftur á föstudagskvöld, í þetta sinn fyrir brot á útlendingalögum og að hafa gefið lögreglu upp vitlaust nafn. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir honum, en á það féllst dómari ekki og var hann því látinn laus um klukkan hálffjögur í dag. 

Maðurinn kom að sögn til Danmerkur sem hælisleitandi, en ekki liggur fyrir hvort hann hafi hlotið hæli eða ekki. Danska ríkisútvarpið greinir frá því að í kæru komi fram að hann hafi frá október 2015 til september 2018 gefið yfirvöldum rangar upplýsingar og meðal annars sagst vera 21 árs er hann var í raun 26 ára.

Maðurinn var meðal þeirra 20 sem handteknir voru í Danmörku á miðvikudag grunaðir um að leggja á ráðin um hryðjuverk, en 16 þeirra hefur nú verið sleppt úr haldi, þar af þremur fyrir atbeina dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert