Níu handteknir í kjölfar jarðskjálfta

Heilu húsin hrundu í borginni Durres í norðurhluta landsins.
Heilu húsin hrundu í borginni Durres í norðurhluta landsins. AFP

Lögregla í Albaníu hefur handtekið níu manns vegna gruns um manndráp og misnotkun á valdi, í kjölfar jarðskjálfta í síðasta mánuði sem varð 51 að bana. 900 slösuðust og 500 misstu heimili sitt í skjálftanum, sem mældist 6,4 að stærð og reið yfir 26. nóvember. Fóru borgirnar Durres og Thumane, norðan höfuðborgarinnar Tirana, einna verst út úr skjálftanum. 

Saksóknarar sega að 17 manns, þar með talið verktakar, verkfræðingar og opinberir starfsmenn, séu grunaðir um brot á byggingarreglugerð, sem hafi leitt til þess að byggingar hrundu í skjálftanum. Haft er eftir Lorenc Shehu, lögreglustjóra í Durres, að einn þeirra handteknu sé verkfræðingur sem hafi unnið að íbúðarhúsi í borginni þar sem átta manna fjölskylda lést.

Framfylgd byggingarreglugerða er að sögn í miklum ólestri í Albaníu. Í kjölfar falls kommúnistastjórnarinnar 1990 hafi stjórnlaus uppbygging íbúðarhúsnæðis hafist og var lítið eftirlit haft með því að öryggisstaðlar væru uppfylltir.

Albanía liggur á mörkum Evrasíuflekans og Adríahafsflekans og er virkt jarðskjálftasvæði. Skjálftinn í síðasta mánuði er sá mannskæðasti í landinu í 99 ár, og sá mannskæðasti í heiminum á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert