„iPad er ekki töfralausn“

AFP

„iPad er ekki töfralausn,“ segir barna- og menntamálaráðherra Danmerkur, Pernille Rosenkrantz-Theil. Hún vill færri skjái og fleiri bækur í skólastofum.

Í frétt Politiken segir Rosenkrantz-Theil að allt of mikil áhersla sé lögð á stafræna kennslu í skólum á kostnað bóka og telur að bæta þurfi jafnvægið þarna á milli. Þegar börn fari í skólann án þess að ein einasta bók sé í skólatöskunni sé of langt gengið. 

Hún segir að þörf sé á heilbrigði skynsemi þegar kemur að stafrænni menntun. iPad sé svo sannarlega ekki samnefnari fyrir allt það versta í heiminum en það séu takmörk fyrir því hvað spjaldtölva getur gert.  

Hún telur að spjaldtölvuvæðing skólanna hafi gengið of langt þar sem um 85% af kennslu fari fram í gegnum slík tæki á kostnað bóka.

Í frétt Politiken er vísað í nýlega rannsókn þar sem fram kemur að ef börn lesa frekar af skjá en bók þá lesi þau minna. Tekið er dæmi af börnum í fjórða bekk en rannsóknin sýnir að börnum sem eyða minna en 30 mínútum í lestur utan skóla fer fjölgandi. Fara úr 50% árið 2011 í 60% árið 2016. Eins fer þeim fækkandi nemendum sem segjast njóta þess að lesa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert