Leiðir bænastund í fyrsta sinn í átta ár

Khamenei á fundi í Teheran fyrr í vikunni.
Khamenei á fundi í Teheran fyrr í vikunni. AFP

Ayatollah Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, mun leiða vikulega bænastund múslima í höfuðborginni Teheran í dag. Mánuðurinn hefur verið erfiður fyrir Íran. Um tíma virtist landið á leið í stríð við Bandaríkin og skömmu síðar grandaði Íran farþegaþotu frá Úkraínu fyrir mistök.

Síðast leiddi Khamenei bænastund í moskunni Mosalla í febrúar árið 2012 þegar 33 ár voru liðin síðan klerkastjórnin tók völdin í Íran í íslömsku byltingunni. Á sama tíma voru vandamál uppi í tengslum við kjarnorkumál landsins.

Eftir að Bandaríkin drápu íranska herforingjann Quasem Soleimani í drónaárás brugðust Íranar við með því að skjóta flugskeytum á bækistöðvar Bandaríkjahers í Írak.

Hernaðarandstæðingar með grímur Ali Khamenei, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og …
Hernaðarandstæðingar með grímur Ali Khamenei, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og Donald Trump Bandaríkjaforseta mótmæltu við Brandenborgarhliðið í Berlín á dögunum. AFP

Ellefu bandarískir hermenn særðust

Ellefu bandarískir hermenn særðust í árásinni, að því er kom fram í yfirlýsingu frá Bandaríkjunum í gær, sem er þvert á fyrri yfirlýsingar hersins um að enginn hefði slasast. Litlar skemmdir urðu á húsnæði og búnaði.

Fyrr þennan sama dag lagði Hassan Rouhani, forseti Írans, áherslu á það í sjónvarpsræðu að Íran „ynni að því daglega að koma í veg fyrir hernaðaraðgerðir eða stríð“ og bætti við að samtal við þjóðir heimsins væri enn mögulegt. 

Eftir að Íranar skutu niður farþegaþotuna, aðeins nokkrum klukkustundum eftir flugskeytaárásir Írana í Írak, virtist draga úr spennunni á milli Washington og Teheran, þó svo að írönsk yfirvöld hafi verið á varðbergi vegna mögulegra hefndaraðgerða Bandaríkjanna. Alls fórust 176 manns, aðallega Íranar og Kanadabúar.

Mótmæli hafa staðið yfir gegn írönskum stjórnvöldum eftir að herinn viðurkenndi að hafa grandað vélinni fyrir mistök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert