75 fangar flúðu

Utan við fangelsið, nálægt borginni Pedro Juan Caballero, í dag.
Utan við fangelsið, nálægt borginni Pedro Juan Caballero, í dag. Ljósmynd/Innanríkisráðuneyti Paragvæ

75 fangar hafa flúið úr fangelsi í Paragvæ, nálægt landamærunum við Brasilíu, að sögn stjórnvalda þar syðra. Segir í tilkynningu frá stjórnvöldum að fangaverðir séu grunaðir um að hafa leyft föngunum að ganga óhindraðir út um aðalinngang fangelsisins.

Göngin einungis til að hylma yfir

Eftir skoðun fundust göng út úr fangelsinu, hvar einn fangi var handsamaður við að reyna að flýja, en innanríkisráðherrann Euclides Acevedo sagðist á Twitter telja að göngin hefðu einungis verið til að hylma yfir brot fangavarðanna.  „Við fundum göngin og teljum að þau hafi verið til að hylma yfir að föngunum hafi verið sleppt,“ var á meðal þess sem hann sagði á Twitter og sagði það morgunljóst að starfsmenn fangelsisins hefðu verið með í ráðum. Þá bætti hann við að frekari upplýsingar bentu til þess að föngum hefði á síðustu dögum verið leyft að flýja í smærri hópum og að þetta hefði átt sér stað þegar fangelsisstjórinn hefði verið í sínu árlega leyfi. 

Fjöldi þeirra sem flúðu tilheyra stærstu glæpasamtökum Brasilíu, PCC. Um 30.000 manns starfa innan samtakanna, sem eru þekkt fyrir eiturlyfja- og vopnaflutning, að því er fram kemur á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert