Ríkisstjórnarsamstarfi Noregs slitið

Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins.
Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins. AFP

Framfaraflokkurinn sagði sig rétt í þessu úr ríkisstjórn Noregs hvar hann hefur setið í sex ár, tvo mánuði og tuttugu daga. 

„Það er enginn grundvöllur fyrir því að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram,“ sagði Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, á blaðamannafundi í dag. 

„Ég fór inn í ríkisstjórn með Framfaraflokkinn og nú fer ég aftur út úr ríkisstjórninni með flokkinn. Ég geri það vegna þess að það er það eina rétta í stöðunni,“ bætti Jensen við. 

Hún sagðist vera stolt af því sem flokkurinn hefði áorkað í ríkisstjórn, sérstaklega til að byrja með þegar einungis Framfaraflokkurinn og Hægriflokkurinn sátu í ríkisstjórn. Síðan fleiri komu inn í stjórnina hafi hún orðið stefnulaus, að sögn Jensen. 

Í byrjun árs 2018 kom Frjálslyndi flokkurinn Venstre inn í ríkisstjórnina og í byrjun síðasta árs gekk Kristilegi þjóðarflokkurinn einnig inn í hana.

Það sem gerði útslagið fyrir Framfaraflokkinn var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að flytja norska konu af pakistönskum ættum til landsins ásamt tveimur ungum börnum hennar. Faðir barnanna er vígamaður Ríkis íslams.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Vildi herta innflytjendalöggjöf

Í morgun funduðu Jensen og Solberg um málið og Jensen lagði fram kröfur sem uppfylla þyrfti ef Framfaraflokkurinn ætti að sitja áfram í ríkisstjórn. Á meðal krafna var hert innflytjendalöggjöf.

Ákvörðun stjórn­valda er sögð vera í mannúðarskyni en Fram­fara­flokk­ur­inn vildi meina að hætt­an sam­fara komu konunnar væri meiri en mannúðarskylda Nor­egs þegar kem­ur að stuðningi við börn.

Eftir að Jensen tilkynnti fráhvarf Framfaraflokksins tók hún fram að það væri eðlilegt að flokkurinn liti enn á Ernu Solberg, sitjandi forsætisráðherra, sem forsætisráðherra Noregs þrátt fyrir að Framfaraflokkurinn segði sig úr ríkisstjórn. 

„Við höfum enga löngun til að skipta um forsætisráðherra og teljum að Solberg sé sú rétta til að leiða landið á komandi tímum.“

Frétt nrk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert