Bercow verði að ganga í Verkamannaflokkinn

John Bercow, fyrrverandi forseti neðri deildar breska þingsins.
John Bercow, fyrrverandi forseti neðri deildar breska þingsins. AFP

Fréttir fjölmiðla í Bretlandi herma að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafi í hyggju að tilnefna John Bercow, fyrrverandi forseta neðri deildar breska þingsins, í lávarðadeild þingsins. Breska ríkisstjórnin sé hins vegar ekki reiðubúin að samþykkja tilnefninguna nema Bercow gangi í Verkamannaflokkinn.

Hefð er fyrir því að forseti neðri deildarinnar taki sæti í lávarðadeildinni þegar eftir að hann lætur af embætti. Hins vegar var sú ekki raunin þegar Bercow, sem sat á þingi fyrir Íhaldsflokkinn, lét af embætti síðasta haust. Ástæðan er bæði sögð ásakanir um að hann hafi beitt sér gegn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í þinginu og ekki gætt þess hlutleysis sem hann hafi átt að gæta sem þingforseti og einnig ásakanir á hendur honum frá ýmsu starfsfólki þingsins um ruddalega framkomu.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Corbyn hafi hvorki staðfest né neitað því að hann ætli að tilnefna Bercow. Haft er eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að löng hefð sé fyrir því að leiðtogi stjórnarandstöðunnar, það er í þessu tilfelli Corbyn, geti aðeins tilnefnt einstaklinga úr eigin flokki í lávarðadeildina.

Hins vegar segir að Bercow gæti einnig tilnefnt sjálfan sig til setu í lávarðadeildinni en Boris Johnson forsætisráðherra hefði hins vegar neitunarvald í því tilfelli. Þá yrði einnig að meta tilnefninguna meðal annars í ljósi ferils Bercows sem þýddi að skoða þyrfti ofan í kjölinn ásakanir starfsfólks þingsins á hendur honum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert