Óttast að 2019-nCoV stökkbreytist

Nýja veiran sem hefur drepið níu manns gæti stökkbreyst og dreifst enn hraðar segja kínversk heilbrigðisyfirvöld. Staðfest hefur verið að 440 manns hafa sýkst af lungnasjúkdómnum. 

Yfirvöld í Kína hafa gripið til margvíslegra ráða til þess að reyna að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn breiðist frekar út en hann er þegar kominn til nokkurra héraða auk annarra landa, svo sem Bandaríkjanna, Taílands og Suður-Kóreu. 

Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið gefið út hvað varðar varnir og smitsjúkdómastjórn í Kína en vitað er að sjúkdómurinn, sem virðist hafa átt upptök sín á fiskmarkaðnum í kínversku borginni Wuhan, geti smitast manna á milli. Þar hefur veiran fundist í ýmsum umhverfissýnum. 

Veiran, sem gengur undir heitinu 2019-nCoV, er talin vera nýtt afbrigði kórónaveiru sem ekki hefur áður greinst í mönnum. Sjúkdómseinkenni eru sótthiti, hósti, andnauð og öndunarerfiðleikar.

Ýmis lönd hafa tekið upp skimanir á flugvöllum hjá farþegum sem koma frá Kína en ekki er ástæða til slíks hér á landi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir auk þess ekki með neinum ferðatakmörkunum frá og til Kína né neinum verslunarhindrunum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína, til að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
  • Nota klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Starfsmenn heilbrigðiskerfisins á Íslandi hafa verið upplýstir um þessa nýju veirusýkingu og þeir beðnir um að vera á varðbergi ef til þeirra leita veikir einstaklingar sem nýlega hafa verið á ferðalagi í Kína.

Um tíma var talið að Ástrali sem er nýkominn frá Kína væri með veiruna þar sem hann var með sömu sjúkdómseinkenni en niðurstöður rannsókna sýna að svo er ekki. Maðurinn var í einangrun á sjúkrahúsi í Brisbane um tíma en hann kom til borgarinnar frá Wuhan. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert