Brexit-samningurinn samþykktur

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í neðri deild breska þingsins í …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í neðri deild breska þingsins í gær. AFP

Breska þingið hefur endanlega samþykkt samning ríkisstjórnar Boris Johnson forsætisráðherra um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit). Lávarðadeild þingsins samþykkti frumvarp Johnsons um samþykkt samningsins í gær.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að lávarðadeildin hefði upphaflega sent frumvarpið aftur til neðri deildarinnar með breytingartillögum en tillögunum hefði hins vegar öllum verið hafnað af þingmönnum hennar.

Gert er ráð fyrir að Elísabet Bretadrottning undirriti lögin í dag. Þar með munu þau taka formlega gildi. Ríkisstjórnin mun nú endanlega staðfesta samninginn en fyrirhugað er að Bretland gangi formlega úr sambandinu 31. janúar klukkan 23:00.

Horft fram á veginn og sverðin slíðruð

Johnson sagði af þessu tilefni að björt og spennandi framtíð biði bresku þjóðarinnar. Útlit hefði verið fyrir að ekkert yrði af útgöngunni á tímabili en nú hefði verið gengið frá henni. Bretar gætu nú horft fram á veginn, slíðrað sverðin og grætt sárin.

Reiknað er með að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, og forseti leiðtogaráðs þess, Charles Michel, undirriti útgöngusamninginn í dag. Hann verður síðan lagður fyrir þing sambandsins til samþykktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert