Kínverskir námsmenn settir í einangrun í Bretlandi

AFP

Háskólar í Bretlandi eru í viðbragðsstöðu vegna kórónaveirunnar samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Kínverskir háskólanemar sem snúa aftur til náms í landinu um þessar mundir hafa fengið þau skilaboð að þeir þurfi að sæta einangrun. Einn af hverjum fimm erlendum háskólanemum í landinu kemur frá Kína.

Haft er eftir heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi í fréttinni að fjórtán einstaklingar hafi verið rannsakaðir í landinu vegna gruns um að vera sýktir af kórónaveirunni. Fyrir liggur að fimm báru hana ekki en rannsóknir standa enn yfir á hinum níu. Þar á meðal eru fimm einstaklingar sem eru í einangrun á sjúkrahúsum í Skotlandi eftir að þeir sneru heim frá Wuhan-héraði í Kína vegna einkenna sem minna á flensu.

Fyrstu tilfelli veirunnar komu upp í Wuhan-héraði og hafa 20 milljónir manna verið settar í einangrun í Kína vegna málsins. Alls eru um 830 staðfest smit og 26 látnir. Auk Kína hafa smit verið staðfest í Suður-Kóreu, Japan, Hong Kong, Makaó, Taílandi, Taívan, Singapúr, Víetnam og Bandaríkjunum. Grunur er um smit í Finnlandi.

Flestir líklegir til að ná sér af veirunni

Bresk heilbrigðisyfirvöld telja allar líkur á að um miklu fleiri tilfelli sé að ræða í Bretlandi. Haft er eftir dr. Paul Cosford, framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar Englands, að flestir sem smitist séu líklegir til að ná sér. Þeir sem látist hafi af völdum veirunnar væru aðallega eldra fólk sem hefði einnig verið með aðra undirliggjandi sjúkdóma.

Vísindamenn segja að ár að minnsta kosti gæti liðið þar til hægt yrði að bólusetja fólk gegn veirunni. Fyrsta útgáfa af mögulegu bóluefni sé til rannsóknar en það gæti tekið mánuði þar til hægt yrði að prófa efnið. Hins vegar tæki ferlið í þeim efnum engu að síður miklu skemmri tíma í dag en fyrir aðeins fáeinum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert