Manntjón varð í öflugum jarðskjálfta í Tyrklandi

Frá borginni Elazig í austurhluta Tyrklands í kvöld. Þessi bygging …
Frá borginni Elazig í austurhluta Tyrklands í kvöld. Þessi bygging gaf sig í öflugum skjálftanum. AFP

Fjórtán hið minnsta eru látnir eftir að stór jarðskjálfti, 6,8 að stærð, skók austurhluta Tyrklands í dag. Upptök skjálftans voru á um það bil 10 kílómetra dýpi, í Elazig-héraði, og fannst hann vel í samnefndri héraðshöfuðborg og nágrenni. Dæmi eru um að hús hafi hrunið í hristingnum.

Suleyman Soylu innanríkisráðherra landsins sagði við tyrknesku Anadolu-fréttaveituna fyrr í kvöld að fjórir hefðu látist og að yfirvöld vonuðust til að þurfa ekki að uppfæra tölur sínar yfir fjölda látinna frekar. Þeim varð ekki að ósk sinni, þar sem nú hefur verið upplýst að 14 hið minnsta eru látnir. Björgunarsveitir eru að störfum á áhrifasvæðum skjálftans.

Eldri maður sem AFP-fréttastofan ræddi við í borginni Elazig sagði að allir hefðu þust út úr húsum sínum er skjálftinn reið yfir. „Hann var mjög öflugur, mjög ógnvekjandi,“ sagði Zekeriya Gunes.

Tyrkland er á brotabelti og þar er algengt að jarðskjálftar valdi tjóni. Árið 1999 reið hörmungarskjálfti yfir vesturhluta landsins, en sá var 7,4 að stærð og olli gríðarlegu manntjóni. Yfir 17.000 manns létust, þar af yfir 1.000 í Istanbúl, stærstu borg landsins.

Fréttin hefur verið uppfærð

Kort/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert