Á sjötta tug dauðsfalla staðfest

Kínversk heilbrigðisyfirvöld sögðu í dag að 56 manns hefðu látist til þessa vegna kórónaveirunnar frá Wuhan og nærri 2.000 smitast. Borgin Wuhan, þar sem ellefu milljónir manna búa, hefur verið eins og draugabær í dag, en þar bönnuðu yfirvöld nær alla bílaumferð nema þá allra nauðsynlegustu.

Verið er að byggja tvo nýja bráðabirgðaspítala í Wuhan til þess að létta þrýstingi af spítölum borgarinnar og nágrannaborga. Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá svipmyndir frá Wuhan í gær.

Nokkur ríki vinna nú að því að koma ríkisborgurum sínum frá borginni, þeirra á meðal Bandaríkin og Frakkland. Bandaríkjamenn ætla að fljúga starfsfólki sendiskrifstofu sinnar í Wuhan til San Fransiskó á þriðjudag.

Nær allir þeir sem hafa látist af völdum veirunnar hafa verið íbúar í Wuhan eða öðrum borgum í Hubei-héraði, en í dag var greint frá því að eldri maður hefði látist í Sjanghæ og er það fyrsta dauðsfallið í kínverskri borg sem tengd er umheiminum með alþjóðlegum flugtengingum, annari en Wuhan.

Sá maður var 88 ára gamall og með undirliggjandi heilsufarsvandamál, en samkvæmt kínverskum heilbrigðisyfirvöldum hafa flestir þeirra sem látist hafa eftir af hafa sýkst af veirunni verið eldra fólk eða fólk sem er veikt fyrir.

Eins og draugabær

Í samtali við AFP-fréttastofuna segir Israt Zahan, doktorsnemi frá Bangladess sem nemur við háskóla í Wuhan, að hún og aðrir erlendir nemendur þar í borginni haldi sig heima þessa dagana, þar sem það sé „of mikil áhætta“ að fara út.

„Iðandi stórborgin lítur út eins og draugabær út um gluggann hjá mér. Búðirnar eru allar lokaðar. Ég skammta mér mat heima. Hann mun endast í tvo daga. Svo veit ég ekki hvað ég geri,“ sagði hún við AFP.

Heilbrigðisstarfsfólk í sóttvarnaklæðnaði fyrir utan spítala í Wuhan í dag.
Heilbrigðisstarfsfólk í sóttvarnaklæðnaði fyrir utan spítala í Wuhan í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert