„Fíkniefnakrókódíllinn“ tekinn af lífi í Íran

Krókódíllinn var býsna duglegur í fíkniefnasmygli, að sögn yfirvalda.
Krókódíllinn var býsna duglegur í fíkniefnasmygli, að sögn yfirvalda. AFP

Eiturlyfjamógúll sem kallaður var „Krókódíll Persaflóa“ var tekinn af lífi í Íran á dögunum. Þarlendir miðlar greina frá því að smyglhringur hans hafi með þessu verið leystur upp. 

Krókódíllinn var handtekinn í miðjum flutningi á meira en 100 tonnum af fíkniefnum á alþjóðlegu hafsvæði, að sögn embættismanna. Hann var 36 ára gamall en vitorðsmaður hans var einnig tekinn af lífi. Rannsókn málsins hefur tekið fjölmörg ár. BBC greinir frá þessu.

Íran tekur hundruð fanga af lífi á hverju ári. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa gefið út að stjórnvöld í landinu hafi að minnsta kosti látið taka 253 af lífi árið 2018. Það er þó 50% minna en árið áður. Þá voru 507 teknir af lífi. Í kjölfarið var ströngum lögum gegn eiturlyfjum í Íran breytt.

Þvoðu peninga og keyptu fasteignir

Enn er þó heimild til þess í lögunum að taka þá sem staðnir eru að alþjóðlegu fíkniefnasmygli af lífi. Krókódíllinn var einn af þeim og starfaði hann undir ýmsum dulnefnum, að sögn Ali Salehi, saksóknara í málinu gegn Krókódílnum.

„Hann leiddi eitt stærsta og grimmasta net fíkniefnasmyglara í Íran,“ sagði Salehi við íranska miðla.

Aðrir liðsmenn gengis Krókódílsins fengu allt að fimm ára langa fangelsisdóma eða háar sektir. Gengið þvoði peninga og notaði ágóðann af fíkniefnaviðskiptunum til þess að kaupa fasteignir. Stjórnvöld hafa nú þegar lagt hald á hluta þeirra. 

Yfirvöld hafa ekki viljað greina frá réttu nafni Krókódílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert