Horfin frænka fagnaði ári rottunnar

Á þessari mynd sést frænkan, Kim Kyong-hui, tveimur sætum frá …
Á þessari mynd sést frænkan, Kim Kyong-hui, tveimur sætum frá leiðtoganum Kim Jong-un. Ljósmynd/Ríkisstjórn Norður-Kóreu

Föðursystir leiðtoga Norður-Kóreu, sem ekki hefur sést opinberlega í um það bil sex ár, tók þátt í nýársfögnuði yfirvalda í höfuðborginni Pjongjang í gær, laugardag.

Frá þessu greina norðurkóreskir ríkisfjölmiðlar og á mynd sem dreift hefur verið frá athöfninni í gærkvöldi glittir í hina 73 ára gömlu Kim Kyong-hui, frænku leiðtogans Kim Jong-un. Nafn hennar var einnig á lista yfir þá sem sóttu viðburðinn.

Árum saman hafa orðrómar verið uppi um að litli frændi hafi eitrað fyrir þessari föðursystur sinni eða komið henni fyrir kattarnef með öðrum hætti, í valdabaráttu eftir andlát Kim Jong-il, fyrri leiðtoga landsins.

Vitað er fyrir víst að Kim Jong-un lét taka eiginmann hennar af lífi fyrir föðurlandssvik og spillingu, í desember 2013, en sá var valdamikill embættismaður í ríkinu og er talið að leiðtoginn hafi látið drepa hann til að tryggja völd sín.

Kim Kyong-hui var nokkuð áberandi við hlið bróður síns á síðustu árunum fyrir andlát hans. Hún var meðal annars fjögurra stjörnu hershöfðingi í norðurkóreska hernum og átti einnig sæti í stjórnmálaráðinu Politburo. Þá er hún sögð hafa undirbúið litla frænda, Kim Jong-un, undir að gerast arftaki föður síns.

Búin að vera heilsuveil

Norður-Kórea er lokaðasta land veraldar og afar erfitt er fyrir fjölmiðla að afla sér upplýsinga um hvað er í raun og veru í gangi þar innanlands. Einmitt þess vegna komast gróusögur um andlát og aftökur oft á flug þegar einhverjir leikendur í stjórnmálalífi landsins sjást ekki til lengri tíma, en tekið skal fram að leyniþjónusta Suður-Kóreu hafði áður vísað því á bug að Kim Kyong-hui hefði verið tekin af lífi.

Samkvæmt þeirra upplýsingum hefur hún verið við slæma heilsu undanfarin ár, en í frétt AP er haft eftir sérfræðingum í málefnum Norður-Kóreu að hún hafi lengi þjáðst af lifrar- og hjartavandamálum.

Associated Press fjallar um þetta mál

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert