Noregur stefnir í 100 hitamet

Aker-bryggja í Ósló, mynd úr safni. Janúarmánuður 2020 verður sá …
Aker-bryggja í Ósló, mynd úr safni. Janúarmánuður 2020 verður sá snjóléttasti síðan mælingar hófust fyrir 83 árum ef ekki kemur korn úr lofti í dag, en árið 1990 féll fyrsti snjór ársins í höfuðborginni 26. janúar. Auk þess stefnir mánuðurinn í rúmlega 100 hitamet víða um landið en 19 stiga hiti mældist í Mæri og Raumsdal 2. janúar. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Fuglasöngur, dafnandi gróður og varla snjó að sjá. Janúar 2020 siglir hraðbyri í eitt hundrað hitamet víða um Noreg, í höfuðborginni Ósló er mánuðurinn þegar orðinn snjóléttasti janúar í manna minnum. Reyndar fellur það met einmitt í dag, 26. janúar.

„Hérna ætti í raun að vera 25 sentimetra djúpur snjór en enginn er snjórinn,“ segir Kristian Gislefoss veðurfræðingur í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um hádegisbil í dag. Hann er staddur úti fyrir höfuðstöðvum norsku veðurstofunnar, Meteorologisk institutt, í Ósló í fuglasöng og sólskini þótt ekki sé sólin lengi á lofti á þessum árstíma í Skandinavíu.

„Þetta er mjög athyglisverður janúar,“ heldur Gislefoss áfram, „yfir hundrað staðir í landinu eiga von á að setja hitamet.“ 

Böggull fylgir skammrifi

Vissulega er svo þægilegur janúarmánuður mörgum kærkominn, ekki er lengra síðan en tvö ár að frost í þessum landshluta, í Hedmark norður af Ósló, fór niður í 42 gráður aðfaranótt 28. febrúar 2018 og sólarhring áður féllu kuldamet á 21 stað í landinu. Ekki eru þar með öll met upp talin því einnig var sett met í sanddreifingu á götum Óslóar, 24.000 tonn, og í fjölda mjaðmarbrota sem komu til meðhöndlunar á Háskólasjúkrahúsinu í Akershus, en þau voru 94 talsins í janúar 2018.

Fleiri hliðar eru þó á peningnum en lúxusveður í janúar. „Hraði þessarar þróunar er óhugnanlegur. Loftslagsbreytingar eru ekki eitthvað sem gerist í framtíðinni, þetta er að gerast núna,“ segir Maria Sand, loftslagsrannsakandi hjá CICERO-loftslags- og umhverfisrannsóknarmiðstöðinni í Ósló (Center for International Climate and Environmental Research Oslo).

Sand, sem er veðurfræðingur að mennt, dregur sérstaklega fram tvær ástæður fyrir svo mildum janúarmánuði. „Í fyrsta lagi eru það loftslagsbreytingarnar en náttúrulegar veðursveiflur eiga einnig hlut að máli. Alla dagana sem hitastigið hefur verið yfir núllinu hefur rignt. Án breytts loftslags hefði snjóað þá daga,“ segir Sand.

Sannarlega hefur ekki verið mikið um þann hvíta í Ósló í ár. Ekki neitt. Reyndar er það þó ekki einsdæmi. Árið 1990 var janúar með öllu snjólaus í borginni fram til 26. janúar, þá snjóaði loksins. Þar sem mjög léttskýjað er í Ósló í dag hefur norska veðurstofan þegar lýst yfir snjóleysismeti í dögum talið í Ósló þegar þetta er skrifað.

Ekki snjóléttara í janúar í 83 ár

Norskir veðurfræðingar iða nú í skinninu yfir því hvort janúar allur verði snjólaus í Ósló en það hefur ekki gerst síðan mælingar hófust fyrir 83 árum.

Sem dæmi um nokkur þeirra allt að 100 og jafnvel fleiri veðurmeta sem veðuráhugamenn munu minnast þessa janúarmánaðar fyrir, fari sem horfir, er 19 stiga hiti á Sunndalsøra í Mæri og Raumsdal 2. janúar, heitara en sama dag á Kanaríeyjunni Gran Canaria þar sem hitastig mædist 18 gráður.

Í Tromsø er meðalhitastig mánaðarins fram til þessa -0,3 gráður í stað -4,4.

Í Trondheim 3,4 gráður í stað -3,0.

Í Bergen  5,6 gráður í stað 1,3.

Í Ósló -2,9 í stað -4,3.

„Þetta sýnir okkur að loftslagsbreytingarnar eru í fullum gangi. Þetta getur haft miklar afleiðingar á gróðurfar, gróðurinn byrjar að taka við sér og er þá nýjabruminu hætt við dauða ef kólnar aftur. Eins verður jarðvegurinn fyrir áhrifum, við fáum aurskriður í stað snjóflóða,“ segir Gislefoss veðurfræðingur að lokum um norskan janúar sem óneitanlega verður að teljast sérstakur.

NRK

NRK II (veturinn styttist í báða enda)

Aftenposten

Dagsavisen

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert