Trúðu ekki fórnarlambi raðnauðgarans í Manchester

Reynhard Sinaga var dæmdur fyrir hrottalegar árásir.
Reynhard Sinaga var dæmdur fyrir hrottalegar árásir. AFP

Peter, stúdentinn sem afhjúpaði raðnauðgarann Reynhard Sinaga, segist hafa óttast að hann hefði drepið Sinaga eftir að Peter vaknaði og barðist á móti þegar hann áttaði sig á að Sinaga var að misnota hann. 

Sinaga er 36 ára gamall og fékk hann fangelsisdóm upp á minnst 30 ár fyrir að hafa nauðgað tugum ungra karlmanna í Manchester, alls 136 sinnum. 

Lamdi Sinaga þar til hann lyppaðist niður

Lögregluyfirvöld telja að hann hefði haldið áfram að brjóta á karlmönnum ef Peter hefði ekki vaknað þegar Sinaga var að misnota hann. Þrátt fyrir það var Peter fyrst um sinn stungið í steininn, ekki Sinaga.

Þolandinn hefur kosið að halda nafni sínu leyndu en er þekktur sem Peter. Hann sagði í viðtali við fréttasíðu Mirror að hann hefði vaknað drukkinn og áttað sig á því að Sinaga væri ofan á sér. Það var árið 2017 en þá var Peter aðeins 18 ára gamall. 

Sinaga hafði skömmu áður byrlað Peter ólyfjan. Hann var hálfnakinn þegar hann vaknaði. Þegar Peter áttaði sig á aðstæðum réðst hann á Sinaga og lamdi hann þar til Sinaga lá hreyfingarlaus á gólfinu. 

„Ég vaknaði ráðvilltur með andlitið í koddanum. Það var teppi á gólfinu. Gallabuxurnar mínar og nærbuxurnar voru gyrtar niður um mig og hann var ofan á mér með buxurnar gyrtar niður um sig,“ sagði Peter.

Þolandinn handtekinn á undan gerandanum

Þegar mennirnir tveir fóru að slást ásakaði Sinaga Peter í sífellu um að hafa ráðist inn á heimili sitt. „Ég sagði: „Félagi, róaðu þig,“ en þá slær hann mig á nefið og byrjar að bíta mig. Ég varð mjög ringlaður,“ sagði Peter.

„Ég var bæði stærri og sterkari en hann. Ég lamdi hann nokkrum sinnum og hann lyppaðist niður í gólfið.“

Eftir að Peter slapp úr íbúð Sinaga hringdi hann í móður sína og bað hana að sækja sig. Í kjölfarið var Peter handtekinn, grunaður um að hafa ráðist á Sinaga. 

Sinaga skildi símann sinn eftir í vasa Peters

Peter eyddi þá ellefu klukkustundum í fangaklefa áður en rannsóknarlögreglumenn uppgötvuðu að í farsíma Sinaga var að finna tugi myndskeiða af því þegar hann réðst á meðvitundarlausa karlmenn. Á meðal myndskeiðanna var myndskeið af árásinni á Peter.

Ástæðan fyrir því að myndskeiðin fundust var sú að Sinaga hafði óvart skilið símann sinn eftir í vasa Peters. Áður en þau fundust trúði lögreglan því ekki þegar Peter sagði þeim að Sinaga hefði nauðgað sér. 

Hann fékk ekki líkamsskoðun fyrr en tveimur dögum síðar. 

Eins og áður segir var það Peter að þakka að Sinaga var loks handtekinn. Peter sagði í áðurnefndu viðtali að sér liði eins og hann væri hetja af tilviljun, ekki ásetningi, þar sem tilviljun ein hefði ráðið því að lögreglan fann myndskeiðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert