„Fiskur stökk upp úr sjónum og stakk mig í hálsinn“

Fiskurinn stökk upp úr sjónum og stakk piltinn í hálsinn.
Fiskurinn stökk upp úr sjónum og stakk piltinn í hálsinn. Ljósmynd/Christian Grill/Wikipedia.org

Indónesískur táningur hefur í fyrsta sinn tjáð sig opinberlega um atvik þegar fiskur stökk upp úr sjónum og stakk hann í gegnum hálsinn.

Rétt er að vara við ljósmynd sem sjá má í frétt BBC um málið.

Eftir að hornfiskur hafði stungið Muhammad Idul datt hann úr bátnum sem hann sat í og ofan í sjóinn. Við tók örvæntingarfullt sund í átt að ströndinni, með fiskinn fastan í hálsinum. Þegar þangað var komið tók við 90 mínútna keyrsla á sjúkrahús en faðir hans sat við stýrið.

Það að Mohammad, sem er 16 ára, er enn á lífi og getur sagt frá því sem gerðist má þakka vini hans sem var fljótur að hugsa, smá heppni og góðum skurðlæknum.

Afdrifarík veiðiferð

Mohammad er orðinn hálfgerð stjarna eftir að ljósmyndir af fisknum í hálsi hans fóru eins og eldur í sinu um netið. BBC talaði við hann aðeins fimm dögum eftir slysið og þar sagðist hann hafa verið í veiðiferð með vini sínum Sardi.

„Sardi sigldi fyrst af stað á bátnum sínum og ég fór síðar í öðrum bát,“ sagði Mohammad.

Um 500 metrum undan ströndinni kveikti Sardi á vasaljósinu sínu. „Þá stökk hornfiskur allt í einu upp úr sjónum og stakk mig í hálsinn.“

Hann féll í vatnið með fiskinn spriklandi í hálsinum að reyna að komast í burtu.

Muhammad greip fiskinn, hélt fast í hann og vonaði að þannig gæti hann komið í veg fyrir frekari meiðsli. „Ég bað Sardi um hjálp. Hann kom í veg fyrir að ég reyndi að fjarlægja fiskinn því þannig gæti ég komið í veg fyrir blæðingu.“

Hausinn eftir í hálsinum

Piltunum tókst að synda í land, þrátt fyrir að Muhammad væri með hinn 75 sentimetra langa fisk fastan í hálsinum.

Saharuddin, faðir Muhammad, keyrði hann í skyndi á sjúkrahúsið í Bau-bau, sem er í um eins og hálfs tíma fjarlægð frá þorpinu þeirra Suður-Buton.

Læknunum tókst að skera fiskinn þannig að aðeins hausinn varð eftir í hálsi piltsins en þeir gátu ekki fjarlægt oddinn þar sem réttu tækin voru ekki til staðar. Þess vegna varð að flytja piltinn á annað sjúkrahús í Makassar, höfuðborg Suður-Sulawesi. Þar voru læknarnir að vonum stórundrandi á því sem hafði gerst.

Fimm sérfræðingar kallaðir til

Forstjóri sjúkrahússins, Khalid Saleh, sagði svona lagað aldrei hafa gerst áður. Alls þurfti að kalla til fimm sérfræðinga til að fjarlægja það sem eftir var af fisknum í hálsinum og tók aðgerðin klukkutíma.

Fimm dögum síðar er Muhammad á góðu róli og getur ekki beðið eftir því að komast heim til sín. Sársaukinn í hálsinum er farinn en hann getur ekki enn snúið höfðinu til hægri.

Hann segist ekki vera hættur að veiða þrátt fyrir það sem gerðist. „Ég verð bara að vera varkárari næst. Hornfiskar þola ekki ljós og þess vegna stökk hann upp úr vatninu og stakk mig,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert