Kórónatilfelli í Finnlandi

Taneli Puumalainen yfirlæknir og Mika Salminen, forstjóri finnsku lýðheilsustofnunarinnar THL, …
Taneli Puumalainen yfirlæknir og Mika Salminen, forstjóri finnsku lýðheilsustofnunarinnar THL, Terveyden ja hyvinvoinnin laitos, greina frá fyrsta staðfesta kórónatilfellinu á Norðurlöndunum á blaðamannafundi á sjúkrahúsinu í Rovaniemi í Finnlandi í dag. AFP

Kínverskur ferðamaður frá borginni Wuhan í Kína, 32 ára gömul kona, greindist í dag með fyrsta tilfellið af kórónasmiti á Norðurlöndunum sem vitað er um. Finnska ríkisútvarpið YLE og fleiri finnskir og skandinavískir miðlar greina frá málinu.

Konan var á ferð í Ivalo í Norður-Finnlandi þegar hún tók að finna fyrir einkennum. Var hún flutt á sjúkrahús í Rovaniemi í Lapplandi þar sem hún var sett í einangrun og hafist handa við að greina sýni sem tekin voru af henni. Varð niðurstaðan sú að konan er sýkt af kórónaveirunni.

„Við reiknuðum með því að veiran bærist til Finnlands með ferðamönnum. Hættan á því að hún dreifi sér víðar um landið er enn mjög lítil svo ekki er ástæða til að hafa áhyggjur,“ segir Mika Salminen, forstjóri Lýðheilsustofnunar Finnlands, Terveyden ja hyvinvoinnin laitos (THL), við Yle.

Samskipti við 15 manns

THL og sjúkrahúsið í Rovaniemi héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag þar sem fram kom að almenningur skyldi halda ró sinni og lifa sínu daglega lífi eins og hvern annan dag. Almennt hreinlæti sé góðra gjalda vert, svo sem reglulegur handþvottur.

Sjúkrahúsið hefur farið nákvæmlega yfir ferðir smituðu konunnar og segjast forsvarsmenn þess hafa haft uppi á öllum sem hún hafi haft samskipti við í Finnlandi. Sé þar um 15 manns að ræða og nú verði fylgst grannt með þeim næstu 14 dagana með það fyrir augum að greina fyrstu einkenni komi þau fram.

Konan ferðaðist frá Wuhan til Finnlands á fimmtudaginn í síðustu viku og fann fyrir fyrstu einkennum á sunnudaginn. Hún hefur það ágætt núna, samkvæmt því sem fram kom á fundinum, en er með hita. Ekki þykir ástæða til að hafa konuna í gjörgæslu.

Rúmlega 130 manns eru nú látnir af völdum veirunnar, en öll fórnarlömbin höfðu undirliggjandi sjúkdóma sem skiptu þar sköpum. Kínverska konan mun nú bíða í einangrunarvist sinni í Rovaniemi þar til bráir af henni. Þegar hún hefur tvisvar sinnum skilað neikvæðu kórónaveiruprófi er henni frjálst að yfirgefa sjúkrahúsið.

Aftonbladet

SVT

Expressen

Helsingin Sanomat (á finnsku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert