Ætlaði að sprengja upp dómkirkjuna

St Paul's-dómkirkjan í London.
St Paul's-dómkirkjan í London. AFP

Kona sem er stuðningsmaður Ríkis íslams hefur játað að hafa ætlað að sprengja sjálfa sig í loft upp í árás á dómkirkjuna St. Paul´s í London.

Sfiyya Shaikh frá Hayes í vesturhluta London fór í sérstakan leiðangur til að kynna sér kirkjuna og hótel í grennd.

Shaikh, sem er 36 ára og hét áður Michell Ramsden, var handtekin eftir að hafa beðið lögreglumann í dulargervi um að útvega henni sprengjur, að sögn BBC.

Hún viðurkenndi í réttarsal að hafa undirbúið hryðjuverk og verður dómur yfir henni kveðinn upp í maí.

AFP

Á tveggja mánaða tímabili sem leiddi til handtökunnar í október 2019 byggði Shaikh upp samband við tvo lögregluþjóna sem störfuðu á laun og þóttust vera hjón í öfgahópi.

Hún sendi öðrum þeirra skilaboð í gegnum dulkóðað smáforrit samfélagsmiðils.

„Mig langar að drepa marga,“ sagði hún við lögregluþjóninn. „Ég vil eyðileggja kirkju … á degi eins og jóladeginum eða föstudeginum langa, drepa fleiri.“

Hún sendi ljósmynd af dómkirkjunni St Paul´s til lögregluþjónsins og skrifaði meðal annars: „Ég vil pottþétt eyðileggja þennan stað.“  Hún bætti við: „Mig langar að sprengja og skjóta út í rauðan dauðann … Mig langar virkilega að eyðileggja þennan stað og óvini Ríkis íslams þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert