Lýsa yfir hæsta mögulega hættuástandi

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hækkað hættustig vegna útbreiðslu kórónuveirunnar á „mjög hátt“ hættustig en það er hæsta mögulega hættustig sem WHO lýsir yfir. Þó er enn hægt að hefta útbreiðslu veirunnar ef smitkeðja hennar er rofin.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, ítrekaði á blaðamannafundi í dag að hræðsla við veiruna og rangar upplýsingar væru stærstu áskoranir heimsbyggðarinnar eins og leikar standa. BBC greinir frá þessu.

Heilbrigðiskerfi óundirbúin

Kórónuveiran hefur nú borist til fleiri en 50 landa, þar á meðal Íslands. Tedros sagði að flest tilvikanna gætu enn verið rakin og ekkert benti til þess að veiran væri að dreifa sér án vitundar yfirvalda. 

Mike Ryan, yf­ir­maður bráðadeild­ar Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar, segir að hættustigið hafi verið hækkað á hæsta mögulega stig til þess að ítreka alvarleika málsins. Hann sagði einnig að heilbrigðiskerfi sumra landa væru enn óundirbúin. 

Starfsmaður pakkar hlífðargrímum sem hafa rokið út að undanförnu.
Starfsmaður pakkar hlífðargrímum sem hafa rokið út að undanförnu. AFP

„Þið eruð skyldug til þess að vera undirbúin, ekki einungis gagnvart þegnum ykkar heldur einnig heiminum öllum,“ sagði Ryan og beindi orðum sínum til stjórnvalda á heimsvísu.

Um 80.000 manns hafa sýkst af veirunni og 2.800 týnt lífi vegna hennar. Stærstur hluti þeirra sem látist hafa eru frá Hubei-héraði í Kína þar sem veiran kom upphaflega upp. Verulega hefur hægt á fjölgun tilfella í Kína undanfarið. 

Í dag greindust fyrstu tilfelli kórónuveiru hérlendis, í Nígeríu, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Hvíta-Rússlandi og Hollandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert