Skjótið vandræðagemsana

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, hefur fyrirskipað lögreglu og her að skjóta þá til bana sem eru til vandræða í útgöngubanni vegna kórónuveirunnar. 

Um helmingur Filippseyinga er nú í sóttkví, þar á meðal milljónir sem búa við mikla fátækt. Sá hópur er án atvinnu vegna harðra fyrirskipana um að fólk haldi sig heima. Alls búa 110 milljónir á Filippseyjum. 

Nokkrum klukkutímum áður en Duterte gaf fyrirskipunina í ræðu sem hann flutti voru nokkrir tugir íbúa í fátækrahverfi höfuðborgarinnar, Manila, handteknir fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum. Mótmælendur sökuðu ríkisstjórnina um að hafa ekki veitt þurfandi mataraðstoð á þessum erfiðu tímum.

„Ég fyrirskipa lögreglunni og hernum, eins þorpsráðum, að ef þau eiga í vanda eða ástandið versnar á þann veg að til átaka kemur og þið óttist um líf ykkar þá skjótið þið til bana,“ sagði Duterte. „Í stað þess að valda vandræðum sendi ég ykkur í gröfina,“ bætti hann við. 

Staðfest smit á Filippseyjum eru 2.311 talsins og 96 eru látnir en nýlega er farið að skima fyrir veirunni þannig að búist er við að staðfestum smitum á væntanlega eftir að fjölga. 

Mannréttindasamtök hafa þegar brugðist hart við ummælum Duterte og hvetja þau ríkisstjórnina til þess að veita fátækum mataraðstoð í stað þess að hóta þeim ofbeldi. 

Í yfirlýsingu frá Amnesty International á Filippseyjum kemur fram að það sé alvarlegt áhyggjuefni að forseti landsins hvetji til þess að skjóta vandræðagemsa til bana. Að senda slík skilaboð til lögreglu og hers sem hefur aldrei tekist á við faraldur í líkingu við COVID-19.

Archie Gamboa ríkislögreglustjóri segir að lögreglumenn muni ekki skjóta vandræðagemsa til bana. „Sennilega hefur forsetinn oftúlkað framkvæmd neyðarlaga,“ segir hann. 

Vegna sóttkvíarinnar hefur nánast öll atvinnustarfsemi stöðvast í Manila en þar búa um 12 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert