Elísabet drottning ávarpar bresku þjóðina

Drottningin mun meðal annars þakka heilbrigðisstarfsfólki og öðru lykilstarfsfólki.
Drottningin mun meðal annars þakka heilbrigðisstarfsfólki og öðru lykilstarfsfólki. AFP

Elísabet Englandsdrottning mun ávarpa bresku þjóðina í kvöld vegna kórónuveirunnar. Í ræðu sinni mun hún hvetja þegna sína til að sýna sjálfsaga og vera einbeittir á meðan faraldurinn gengur yfir. Þá mun hún ræða sorgina, sársaukann og fjárhagslegar áskoranir sem Bretar standa frammi fyrir á þessum erfiðu tímum. BBC greinir frá.

Drottningin mun jafnframt þakka heilbrigðisstarfsfólki og öðru lykilstarfsfólki sem er í framlínunni vegna veirunnar, en jafnframt minna á hve mikilvægt framlag hvers og eins getur verið.

Rúmlega 4.300 hafa látist vegna kórónuveirunnar í Bretlandi, þar af sjö heilbrigðisstarfsmenn. Í gær var greint frá því að 708 hefðu látist á einum sólahring í landinu en það er mesta mannfall sem orðið hefur þar á einum sólarhring vegna veirunnar. Fimm ára drengur var þá meðal látinna. Tala látinna hækkaði jafnt og þétt alla síðustu viku en gert er ráð fyrir því að hápunkti faraldursins í Bretlandi verði náð undir lok þessarar viku.

Drottningin mun ávarpa þjóð sína klukkan átta í kvöld og verður ræðunni bæði útvarpað og sjónvarpað og hún einnig birt á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert