Slegist um heimavarnafólk í Noregi

Rúmlega 700 liðsmenn norska heimavarnaliðsins mættu tafarlaust á vettvang í …
Rúmlega 700 liðsmenn norska heimavarnaliðsins mættu tafarlaust á vettvang í miðbæ Óslóar eftir ódæði Anders Breivik í júlí 2011. Nú er deilt um það í Noregi hvort rétt sé að taka fólk úr vinnu til þess að sinna skyldum sem það hefur boðið sig fram til að gegna í varnaliðinu þegar 400.000 Norðmenn eru skyndilega atvinnulausir vegna kórónuveiru. Ljósmynd/Wikipedia.org/Torgeir Haugaard

„Fjöldi fyrirtækja hefur kvartað við okkur yfir að missa starfsmenn yfir í heimavarnaliðið,“ segir Anne-Cecilie Kaltenborn, forstöðumaður þjónustu- og verslunardeildar norsku vinnuveitendasamtakanna NHO, við norska dagblaðið VG. Norska heimavarnaliðið er eins konar undirdeild norska hersins, liðsmenn þess gegna ekki beinlínis herþjónustu heldur bjóða sig fram skyldulaust til varnar landi og þjóð.

Kvörtun Kaltenborn snýr að því að fjöldi vinnandi fólks, sem ekki hefur verið sagt upp á norskum vinnumarkaði, þar sem fleiri en 400.000 manns eru nú skyndilega án vinnu, hefur verið kvatt í heimavarnaliðið, meðal annars með það fyrir augum að gæta þess að Norðmenn laumist ekki í sumarbústaði, en Bent Høie heilbrigðisráðherra bannaði slíkar ferðir nýlega með lögum eins og Morgunblaðið greindi frá í mars.

„Heimavarnaliðið ætti fyrst að kalla til sín það fólk sem þegar er án atvinnu, ekki þá sem eru í vinnu enn sem komið er,“ segir Kaltenborn við VG en nú er gert ráð fyrir að í versta falli 79 prósent norskra vinnuveitenda segi fólki upp eða sendi það tímabundið heim á næstunni með úrræði sem á norsku kallast permittering og er vægara úrræði en uppsögn, í raun tímabundið atvinnuhlé með bótum og von um vinnu áður en langt um líður.

„Vinnan fer öll til fjandans“

„Þetta er svona 50/50 vinna og leikskóli heima hjá mér og sambýliskonunni,“ segir Christer Heen Skotland, starfsmaður norsku vatns- og orkumálastofnunarinnar, sem fyrr í vikunni deildi degi sínum milli þess að vera með heimaskrifstofu, sem Norðmenn kalla hjemmekontor, og að passa börnin.

Líf hans breyttist hins vegar óvænt þegar hann var beðinn að mæta á vakt norska heimavarnaliðsins eins og skot. „Þetta er alveg ömurlegt, vinnan fer öll til fjandans og konan mín neyðist nú til að vera ein heima með börnin allan daginn,“ segir Skotland.

Á miðvikudaginn var Skotland tjáð að hann þyrfti ekki að standa vakt á Gardermoen-flugvellinum rétt utan við Ósló. Hann væri hins vegar á bakvakt og skyldi því halda sig heima og bíða frekari skipana. Þeir elstu ganga nefnilega fyrir í varnaliðinu í Noregi þar sem líklegast er að þar fari fjölskyldufólk og þurfi því frekar á launum að halda.

„Það er reyndar skynsamleg afstaða hjá liðinu, það sýnir því þá skilning að allir geta ekki mætt fyrirvaralaust,“ segir Skotland. „Heimavarnaliðið ætti þó að koma sér upp svo ríkulegum mannskap að það geti rekið sig á sjálfboðaliðum einum, þar með gæti það auðveldlega notað fólk sem hefur misst vinnuna,“ segir hann enn fremur.

Geta ekki valið úr fólk

Per Gunnar Grosberghaug, upplýsingafulltrúi norska heimavarnaliðsins, er ekki sammála Skotland. „Við spyrjum ekki hermennina okkar um það hvort þeir hafi misst vinnuna áður en við köllum þá til starfa og ætlum okkur ekki að gera það.

Blaðamaður VG spyr þá hvort ekki sé skynsamlegra að þeir sem eru í vinnu enn sem komið er haldi hinum annáluðu hjólum atvinnulífsins gangandi með því að vera þar.

„Við sinnum okkar verkefnum, ég hef fullan skilning á hjólum atvinnulífsins,“ svarar Grosberghaug. „Allir hafa einhverjum skyldum að gegna, við getum ekki valið úr fólk sem hefur misst vinnuna.“

Kaltenborn hjá vinnuveitendasamtökunum segir það mjög alvarlegt mál að taka fólk úr vinnu til að gegna þegnskyldu í heimavarnaliðinu. „Eins og staðan er núna [í kórónufaraldrinum] snúum við öllum steinum og stöndum saman til að ástandið verði ekki verra hjá fyrirtækjum sem eru að reyna að halda atvinnulífinu gangandi.“

Meira um norska heimavarnaliðið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert