Stærsta stökk í atvinnuleysi í 40 ár

Kona með öndunarfæragrímu bíður eftir lest í Toronto í Kanada.
Kona með öndunarfæragrímu bíður eftir lest í Toronto í Kanada. AFP

Atvinnuleysi í Kanada mældist 7,8% í síðasta mánuði þegar fleiri en milljón misstu vinnuna. Um er að ræða mestu aukningu í atvinnuleysi milli mánaða frá árinu 1976, en ástæðuna má rekja til versnandi efnahagsaðstæðna vegna kórónuveirunnar, að sögn þarlendra yfirvalda. 

Tölurnar endurspegla „fordæmalausar aðgerðir stjórnvalda vegna Covid-19, á meðal hverra eru lokanir fyrirtækja sem ekki gegna hlutverki í baráttunni við kórónuveiruna, ferðatakmarkanir og aðgerðir heilbrigðiskerfisins sem miða að því að takmarka samneyti Kanadamanna,“ samkvæmt hagstofu Kanada. „Þetta inngrip olli viðamikilli kulnun hagkerfisins og skyndilegu áfalli fyrir kanadíska vinnumarkaðin.“ 

Greiningaraðilar frá bankanum CIBC telja að einungis sé um að ræða brot af því sem koma skal, og að „atvinnuleysi í bæði Bandaríkjunum og Kanada verði komið í tveggja stafa tölu fyrir apríl“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert