Uppljóstrarinn Linda Tripp látin

Linda Tripp, lengst til hægri, ræðir við fjölmiðlafólk utan við …
Linda Tripp, lengst til hægri, ræðir við fjölmiðlafólk utan við dómshús í Washington árið 1998 eftir að hafa gefið þar vitnaskýrslu. AFP

Linda Tripp, fyrrverandi starfsmaður hins opinbera í Bandaríkjunum, sem líklega er þekktust fyrir að hafa komið upp um Clinton-Lewinsky-hneykslið svokallaða, er látin, 70 ára að aldri. Banameinið var krabbamein í brisi. BBC greinir frá.

Eins og flestir sem fylgdust með fréttum á ofanverðum tíunda áratug síðustu aldar þekkja snerist Clinton-Lewinsky-hneykslið um ástarsamband þáverandi Bandaríkjaforsetans Bills Clintons, þá 49 ára, og Monicu Lewinsky, þá 22 ára. Linda Tripp og Monica Lewinsky, sem þá gegndi nemastöðu í Hvíta húsinu, voru þrátt fyrir 24 ára aldursmun góðar vinkonur og hóf Tripp, sem þá starfaði í Pentagon, að taka upp samtöl sín á laun við Lewinsky þegar hún komst að því að Lewinsky og Clinton áttu í ástarsambandi. Tripp afhenti síðar upptökurnar Kenneth Starr, sérstökum saksóknara, sem leiddi til viðamikillar rannsóknar á ríkisstjórn Clintons.

Monica Lewinsky hefur síðustu ár m.a. starfað sem sjónvarpsþáttastjórnandi.
Monica Lewinsky hefur síðustu ár m.a. starfað sem sjónvarpsþáttastjórnandi. AFP

Með heill þjóðar í huga

Úr varð að Clinton var ákærður fyrir að hafa logið til um samband sitt við Lewinsky, en áður hafði Clinton lýst því skýrt yfir að hann hefði ekki átt í neinu ástarsambandi við Lewinsky, eins og frægt varð. 

Tripp, sem sjálf sagðist hafa afhent upptökurnar með heill þjóðar í huga, var ýmist hampað sem uppljóstrara eða gagnrýnd fyrir að hafa ætlað sér að grafa undan forsetanum og svikið vinkonu sína. 

Við skýrslutökur árið 1998 sagði Lewinsky: „Ég er miður mín vegna alls sem gerðist, og ég hata Lindu Tripp.“ Nú fyrir stuttu, þegar veikindi Tripp voru orðin alvarleg, tísti Lewinsky: „Hvað sem fortíðinni líður, þegar ég heyri að Linda Tripp er mjög veik vona ég að hún nái sér. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt þetta er fyrir fjölskyldu hennar.“

Bill Clinton jafnaði sig á skandalnum, og sést hér í …
Bill Clinton jafnaði sig á skandalnum, og sést hér í góðum gír. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert